Í síðustu viku hófust vinnuvélar og menn handa við að rífa hús sem staðið hefur autt undanfarin ár á horni Hringbrautar og Ánanausta.

Niðurrifið á húsinu við Hringbraut er langt komið. Þeir síðustu sem skelltu hurðinni á eftir sér þar var Matvöruverslunin Víðir fyrir nokkrum árum. Þar á undan hafði BYKO verið í húsinu í all mörg ár. Húsið var hins vegar upprunalega byggt fyrir bifreiðastöðina Steindór.

Jónas Þór Þorvaldsson framkvæmdastjóri Kaldalóns segir að áttatíu og þrjár íbúðir verða byggðar á lóðinni í tveimur meginbyggingum og þeirri þriðju sem verði mun minni.
„Það sem verður byggt hér að framanverðu meðfram Hringbrautinni verður bogalaga bygging sem kallast á við hið fræga JL-hús hinum megin götunnar. Tveggja til fimm hæða hús upp á einhverjar 45 íbúðir. Svo þrjátíu og fimm íbúðir þar fyrir aftan Sólvallagötu meginn,“ segir Jónas Þór.
Í húsunum verði blanda tveggja til fjögurra herbergja íbúða ásamt fáeinum fimm herbergja og stúdíó íbúðum. Jónas óttast ekki að fólk setji fyrir sig að stór hluti íbúðanna snúi að hinni umferðarmiklu Hringbraut.

„Auk þess eru ákveðin áform um breytingar hjá Vegagerðinni og borginni á hringtorginu hérna sem hægir enn frekar á umferðinni. Svo er það þannig að á jarðhæðinni sem snýr út að Hringbrautinni verður atvinnuhúsnæði,“ segir Jónas Þór. Reiknað sé með að byggingaframkvæmdir hefjist um páska og verði að mestu lokið eftir tvö ár.
„Það er nánast varla hægt að tala um nema hundrað íbúðir eða svo sem hafa verið byggðar nýjar nálægt þessum stað (gamla Vesturbænum) síðustu hálfa öldina,“ segir Jónas Þór. Eftirspurnin sé því mikil.