Erlent

Mótmæli bænda urðu að óeirðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Þúsundir bænda mótmæltu á götum Nýju Delí. Margir óku um á traktorum og einhverjir voru jafnvel á hestum.
Þúsundir bænda mótmæltu á götum Nýju Delí. Margir óku um á traktorum og einhverjir voru jafnvel á hestum. AP/Altaf Qadri

Þúsundir indverskra bænda lentu í átökum við lögreglu í Nýju Delí, höfuðborg landsins, í dag. Bændurnir hafa fjölmennt í borginni í nærri því tvo mánuði til að mótmæla nýjum lögum sem þeir segja að komi verulega niður á þeim en einn bóndi lét lífið í mótmælunum í dag.

Bændurnir keyrðu um götur borgarinnar í traktorum, mótorhjólum og jafnvel hestum en margir þeirra yfirgáfu kröfugönguna og lögðu leið sína til miðborgar Nýju Delí þar sem verið var að halda árlega skrúðgöngu hermanna.

Úr varð mikil óreiða.

Þeir ruddu sér leið í gegnum tálma lögreglunnar og brutust inn í Rauða virkið svokallaða og hífðu þar fána að húni. Virkið var áður heimili keisara Mughalveldisins og þar dró fyrsti forsætisráðherra Indlands fána landsins að húni árið 1947.

Lögregluþjónar skutu táragasi að mótmælendunum til að reyna að tvístra þeim.

Einn bóndi dó þegar traktor hans valt. Þá hefur Times of India eftir lögreglu að minnst 83 lögregluþjónar séu særðir eftir átök við bændur.

Reuters segir um helming íbúa Indlands, sem eru um 1,3 milljarðar, vinni við landbúnað og að reiði um 150 milljóna landeigenda hafi valdið áhyggjum í ríkisstjórn Narenda Modi, forsætisráðherra.

Í viðræðum hefur ríkisstjórnin lagt til að fresta lögunum um 18 mánuði. Bændur, sem segja lögin koma niður á þeim en hygla stórfyrirtæki sem kaupi landbúnaðarvörur, segja það ekki koma til greina og vilja að lögin verði afnumin.

Leiðtogar samtaka bænda hafa fordæmt ofbeldið og kallað eftir því að menn haldi friðinn.

Hér má sjá hrátt myndefni AP fréttaveitunnar frá óeirðunum.

Hér að neðan má sjá frétt BBC með myndefni frá Nýju Delí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×