Kórónuveiran og áhrif hennar hafa verið mikið til umræðu í Egyptalandi. Mörg félög hafa verið gagnrýnd fyrir að fara ekki eftir reglum og önnur félög hafa kvartað yfir því að mótshaldarar og IHF séu ekki með allt sitt upp á tíu.
Nikolaj Jacobsen, þjálfari Dana, er ekkert sérstaklega hrifinn af því hvernig umgengnin væri á hóteli Dana. Þeir gista ekki á sama hóteli og íslenska liðið. Það danska gistir á Hotel Marriott í Kairó.
„Það eru reglulega brotnar reglur af öðrum liðum, já. Svo lengi sem við höldum okkur upp á okkar hæð þá finnst okkur við vera nokkuð öruggir. Það er verra þegar maður byrjar að hreyfa sig um hótelið,“ sagði Nikolaj. Er hann var beðinn um að fara nánar út í hvað væri að svaraði hann:
„Ég held að það séu nokkur lið sem hafa ekki fengið nægilega margar grímur,“ sagði hann og hló. „Það eru heldur ekki öll lið sem hafa lesið reglurnar um fjarlægðartakmörk, þegar maður er í morgunmat. Það eru líklega einhverjir sem hafa lesið tíu sentímetrar og einhverjir meter.“
Corona-problemerne fortsætter i Kairo. Nikolaj Jacobsen bliver 'irriteret' og 'lidt utryg', når han går rundt i VM-boblen. Og så fortæller han, at flere af de andre landshold ikke overholder reglerne. Mere her: https://t.co/VPagNRot3J #hndbld #Egypt2021 #Handball
— Søren Paaske (@spaaske) January 16, 2021
Hann segir þó að það séu einhverjar jákvæðar fréttir af hótelinu.
„Við höfum það gott á fimmtu hæðinni. Við erum með frábært fundarherbergi og annað herbergi þar sem leikmennirnir geta verið saman. Síðan eru herbergin góð og ef við gætum bara verið hérna uppi, þá væri það mjög fínt.“
„En þegar maður fer og labbar um hótelið verður maður pirraður og órólegur og það er ástæðan fyrir því að við höfum sagt að við reynum að vera sem mest á hæðinni hjá okkur. Mínar stærstu áhyggjur eru í matsalnum,“ sagði ríkjandi heimsmeistarinn.
Danir hafa titil að verja en þeir hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlinum í Egyptalandi. Þeir eru taldir einna líklegastir til þess að vinna mótið.