Hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson sigldu frá Hafnarfirði og leita núna undan Vestfjörðum. Loðnuskipin þrjú, Ásgrímur Halldórsson, Aðalsteinn Jónsson og Polar Amaroq, sigldu frá Austfjarðahöfnum og eru núna undan Norðausturlandi.
Fylgjast má með leitinni á rauntíma á vef Hafrannsóknastofnunar og þar má sjá hvernig leitarferlar skipanna fimm teikna núna upp litskrúðuga mynd af leiðangrinum, en hvert skip hefur sinn lit.

Athygli vekur að ljósblár ferill Árna Friðrikssonar fylgir ekki fyrirfram útgefnum ferli á Grænlandssundi. Skýringin sést þegar hafískort Veðurstofunnar er skoðað. Hafís hindrar þar leitina og óreglulegur leitarferill sýnir að rannsóknarskipið fylgir ísröndinni. Bjarni Sæmundsson hefur af sömu ástæðu ekki náð að kanna allt svæðið.
„Þetta gengur hratt fyrir sig,“ segir Birkir og vonast til að þessi áfangi klárist á föstudag. Þá lokast veðurglugginn og spáð er brælu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá upphafi leiðangursins á mánudag: