Landlæknir lýsir yfir „sérstökum áhyggjum af stöðu kjarasamninga hjúkrunarfræðinga og á kjaraskerðingu þeirri sem stéttin varð fyrir á Landspítala um liðin mánaðarmót þegar vaktaálagsauki var tekinn af,“ í minnisblaði sínu sem sent var á Heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur í dag.
Landlæknir, Alma D. Möller ræddi einnig stöðu kjaramála hjúkrunarfræðinga á upplýsingafundinum vegna kórónuveirunnar í dag.
„Staða kjarasamninga skapar óvissu um hvernig muni takast að tryggja mönnun þegar róðurinn fer að þyngjast og þörf skapast á að allar stéttir leggist á eitt og skili mun meira vinnuframlagi en venjan er,“ segir enn fremur í minnisblaðinu.
Vísir ræddi í gær við Sóleyju Halldórsdóttur hjúkrunarfræðing á Landspítalanum sem vakti athygli á launamálum hjúkrunarfræðinga í gær. Þar kom í ljós að mánaðarlaun hefðu lækkað um tugi þúsunda eftir að vaktaálagsauki var tekinn af launum hjúkrunarfræðinga.
Tómas Guðbjartsson, læknir, gagnrýndi einnig aðgerðina í færslu á Facebook síðu sinni.
Í minnisblaði landlæknis, Ölmu D. Möller var einnig vakin athygli heilbrigðisráðherra á þeim vanda sem bíður stofnunum vegna skorts á starfsfólki.
„Starfsmenn vinna meiri yfirvinnu en þeir kæra sig um. Tími fer í að leita að fólki í vinnu. Lítið þarf að gerast til að út af bregði. Þörf á lágmarksaðstoð frá bakvarðasveit,” sagði í minnisblaði Landlæknis.