Erlent

Flúði kærasta sinn skömmu áður en hann skaut 22 til bana

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tuttugu og tveir létust eftir skotárás í Nova Scotia í Kanada um síðustu helgi. Árásin stóð yfir í um þrettán klukkutíma.
Tuttugu og tveir létust eftir skotárás í Nova Scotia í Kanada um síðustu helgi. Árásin stóð yfir í um þrettán klukkutíma. Getty/Tim Krochak

Maðurinn sem framdi mannskæðustu árás í sögu Kanada um síðustu helgi réðst á kærustu sína áður en hann hélt út og skaut 22 til bana. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Maðurinn, sem hét Gabriel Wortman, skaut minnst 22 til bana á rúmum þrettán klukkutímum í Nova Scotia í Kanada áður en hann var sjálfur skotinn til bana af lögreglunni.

Konan faldi sig í skóginum fyrir Wortman yfir nótt og er hún lykilvitni í rannsókn lögreglunnar. Wortman er talinn hafa þekkt einhver fórnarlamba sinna en hann hafi líka skotið fólk af handahófi og fólk sem reyndi að skerast í leikinn.

Wortman hafði útvegað sér lögregluklæðnað sem hann klæddist daginn örlagaríka og ók hann bíl sem hann hafði breytt þannig að hann leit út fyrir að vera lögreglubíll. Það hafi aukið á ringulreiðina sem myndaðist.

Lögreglan hefur enn ekki komist að því hvaða ástæða hafi legið að baki árásarinnar og enn er ekki búið að ákvarða hve skipulögð morðin hafi verið. Þá er talið að stór hluti skotvopnanna sem hann átti hafi verið keyptur ólöglega í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×