Erlent

Sextán látnir eftir skotárásina í Kanada

Sylvía Hall skrifar
Frá blaðamannafundi lögreglunnar vegna málsins.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar vegna málsins. Vísir/AP

Sextán létust í skotárás í Nova Scotia um helgina eftir að árásarmaður hóf skothríð á nokkrum stöðum í fylkinu. Árásarmaðurinn var hinn 51 árs gamli Gabriel Wortman.

Á vef The Guardian er greint frá því að Wortman hafi hafið skothríð í smábænum Portapique skömmu fyrir miðnætti á laugardag. Lögreglu barst tilkynning eftir að íbúar heyrðu skothvelli og var þeim í kjölfarið ráðlagt að halda sig innandyra eftir að árásin hófst.

Wortman var skotinn til bana eftir eftirför lögreglu en hann flúði vettvang í bíl sem líktist lögreglubíl. Eftirförin stóð yfir í tólf tíma og lauk henni við bensínstöð nærri borginni Halifax.

Árásin er talin vera ein mannskæðasta skotárás sem hefur orðið í Kanada. Á meðal hinna látnu er lögreglukonan Heidi Stevenson sem hafði starfað fyrir lögregluna í 23 ár. Hún var skotin til bana í Portapique.

Lögreglan segir allt benda til þess að árásin hafi verið skipulögð í þaula, enda hafi Wortman útvegað sér lögreglubúningi og útbúið bílinn svo hann líktist lögreglubíl. Þó gengi lögreglan ekki út frá því að um hryðjuverk væri að ræða.

Útgöngubann er í gildi á svæðinu og segir lögreglan það gera málið erfiðara, enda sé álagið á íbúa mikið fyrir. Það að syrgja ástvini í ofanálag væri hræðilegt.

Skotárásir eru mun sjaldgæfari í Kanada en í Bandaríkjunum þar sem lög um skotvopnaeign eru mun strangari.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×