Skoðun

Samstaðan kemur okkur lengra

Hildur Björnsdóttir skrifar

Það vekur athygli hve stór hluti landsmanna hefur áhyggjur af áhrifum heimsfaraldurs á íslenskan efnahag, en lítill af alvarlegu heilsufarstjóni af sömu sökum. Þetta sýna nýlegar niðurstöður skoðanakönnunar MMR. Þó mikilvægasta verkefnið framundan verði ávallt að standa vörð um fólk og heilbrigði, verður ekki síður mikilvægt að verja störf og afkomu heimilanna. Tryggja hagstæð skilyrði til viðspyrnu og endurreisnar. Um þetta virðast landsmenn nokkuð samhuga.

Kröftugt atvinnulíf er grunnforsenda þróttmiklils efnahags og fjölbreyttra atvinnutækifæra. Þau opinberu kerfi sem við byggjum samfélag okkar á eru órjúfanlega tengd gangverki atvinnulífsins. Menntun, heilbrigði og velferð þjóðarinnar er fjármögnuð með verðmætasköpun í fyrirtækjarekstri. Ef við hyggjumst verja mikilvægar undirstöður samfélagsins á viðsjárverðum tímum, verðum við jafnframt að standa vörð um gangverk atvinnulífsins. Allt helst þetta í hendur.

Á blaðamannafundi í gærdag kynnti Reykjavíkurborg margþættar aðgerðir vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19. Aðgerðirnar voru unnar í góðu samstarfi meirihluta og minnihluta, og meðal þeirra eru tillögur Sjálfstæðisflokks um lækkun fasteignaskatta, lengri gjaldfresti, gjaldskrárlækkanir og viðhaldsátak á innviðum borgarinnar. Jafnframt að ráðist verði í markaðsátak á Reykjavíkurborg sem áfangastað. Það er ánægjulegt þegar ólíkir stjórnmálaflokkar sameinast um mikilvæg verkefni.

Með aðgerðunum hyggjumst við standa vörð um fólk og fyrirtæki, verja afkomu heimilanna og gæta þess að enginn verði skilinn eftir. Við trúum því að samstaðan skili okkur betri árangri við þessar erfiðu en tímabundnu aðstæður.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks




Skoðun

Sjá meira


×