Milan Stefán Jankovic, yfirmaður knattspyrnumála hjá Grindavík, ætlar ekki að þiggja laun frá félaginu 15. mars til 15. apríl.
Starfsemi íslenskra íþróttafélaga liggur niðri þessa dagana vegna samkomubannsins sem var sett á vegna kórónuveirufaraldursins. Því eru engin verkefni fyrir þjálfara og leikmenn liðanna.
Á meðan þessu stendur afþakkar Milan Stefán, eða Jankó eins og hann er jafnan kallaður, laun frá Grindavík.
Í tilkynningu á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Grindavíkur kemur fram að Jankó hafi haft samband við félagið að fyrra bragði og sagt að hann ætlaði ekki að þiggja laun á tímabilinu 15. mars til 15. apríl. Með þessu vilji hann gefa til baka til félagsins sem hafi hjálpað honum svo mikið.
Jankó hefur verið viðloðandi fótboltann í Grindavík í um aldarfjórðung, fyrst sem leikmaður og svo þjálfari.