Einn einstaklingur sem er smitaður af kórónuveirunni er nú í öndunarvél á gjörgæslu Landspítala. Alls liggja inni fimmtán smitaðir á Landspítala og tveir á gjörgæslu, þar af sá sem er í öndunarvél. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar nú síðdegis. Í gær hafði enginn enn þurft að fara í öndunarvél vegna veirunnar á Landspítala.
Líkt og áður hefur komið fram bættust 89 í hóp smitaðra síðasta sólarhringinn og staðfest smit hér á landi eru því alls 737. Hlutfall jákvæðra sýna sem greindist á veirufræðideild Landspítala síðasta sólarhringinn var 17% en hjá Íslenskri erfðagreiningu var hlutfallið 0,2%. Þar voru greind sýni þó öllu færri.
Þórólfur sagði á fundinum í dag að faraldurinn væri enn í vexti og að ný spá í reiknilíkaninu væri væntanleg í dag. Þá væri það afar ánægjulegt að hlutfall nýgreindra síðasta sólarhringinn í sóttkví var 57%, sem undirstriki mikilvægi slíkra aðgerða.
Þá er áfram fylgst sérstaklega með smitum hjá börnum yngri en tíu ára. Alls hafa fimmtán börn á þeim aldri greinst með Covid-19-sýkingu en alls hafa 400 sýni verið tekin. Hlutfall sýktra barna er því 3,7 prósent hjá veirufræðideild Landspítalans. Þá hefur ekkert barn af 434 greinst með veiruna í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Fréttin hefur verið uppfærð.