Flugvélin sem hlekktist á við nauðlendingu á ísilögðu Þingvallavatni í fyrrakvöld var hífð upp af ísnum í morgun. Engan sakaði við óhappið en nefhjól vélarinnar brotnaði við lendinguna.
„Það gekk snilldarvel eins og allt sem við tökum okkur fyrir hendur,“ segir Birgir Ómar Hauksson, forstjóri Norðurflugs, í samtali við Vísi um aðgerðir morgunsins. Tveir menn frá Norðurflugi, auk þyrlu fyrirtækisins, hífðu flugvélina upp úr vatninu og komu henni upp á bakkann. Vélin var við Sandey, um tvo og hálfan kílómetra frá landi.

Birgir segir að til hafi staðið að ná í vélina og koma henni á verkstæði en hann hafði þó ekki upplýsingar um hvort búið væri að ferja hana þangað.
Flugmaður vélarinnar ákvað að lenda á ísnum vegna vélarbilunar. Mennirnir sem voru um borð í vélinni komust svo sjálfir úr henni og af ísnum. Ákveðið var að reyna ekki að koma henni upp á fast land strax vegna þess hversu ótryggur ísinn var.
Myndband af aðgerðunum við Þingvallavatn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.