KA er deildarmeistari kvenna í blaki 2020 og Þróttur Neskaupstað deildarmeistari karla.
Ekki tókst að ljúka mótunum vegna samkomubanns sem sett var á til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Því var ákveðið að staðan frá 16. mars yrði lokastaða.
Stjórn BLÍ hefur ekki blásið af úrslitakeppnina í Mizuno-deildunum en ætlar að nýta næstu daga til að ákveða hvort og með hvaða hætti hún fari fram. Tíminn verður einnig nýttur til að ákveða hvað verður um bikarkeppnirnar en bikarmeistarar ársins 2020 hafa ekki verið krýndir. Ákvarðanir munu liggja fyrir í síðasta lagi 3. apríl. Samkomubann á Íslandi á að gilda að minnsta kosti til 13. apríl.
Varðandi mótahald í 1. deild og neðar segir á vef BLÍ: Staðan eins og hún var í deildunum kl. 00:00 mánudaginn 16. mars er lokastaðan í deildunum. Engar úrslitakeppnir verða haldnar í þessum deildum og því engir Íslandsmeistarar krýndir í þeim. Tilfærslur liða á milli deilda í 2.deild og neðar verða samkvæmt reglugerðum BLÍ og útgefnum útfærslum á þeim ásamt hefðbundnum vinnureglum mótanefndar.
Þá er hinu vinsæla Öldungamóti BLÍ frestað til 11.-13. september. Öllu mótahaldi í yngri flokkum er aflýst.