Í dag er vika síðan Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, tilkynnti um samkomubann í fjórar vikur til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19.
Bannið tók gildi á miðnætti aðfaranótt síðastliðins mánudags og er skiljanlega þegar farið að setja svip sinn á daglegt líf hér á landi.
Þannig er starfsemi menntastofnana í landinu skert, margir vinna að heiman og færri eru almennt á ferli svo bæði verslunarmenn og veitingamenn finna fyrir samdrætti.
Þá er ljóst að ferðabönn sem sett hafa verið á í Bandaríkjunum og í ríkjum ESB munu hafa mikil áhrif á stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar, ferðaþjónustuna. Til að mynda hefur nokkrum hótelum verið lokað nú þegar.
Vísir mun í dag líkt og síðustu daga fylgjast grannt með stöðu mála og segja fréttir af heimsfaraldrinum, bæði af innlendum og erlendum vettvangi. Fylgjast má með öllu því helsta í vaktinni hér fyrir neðan.