Innlent

Telur mjög ó­lík­legt að dánar­or­sök ferða­mannsins liggi fyrir í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar. Vísir/Vilhelm

Dánarorsök ástralska ferðamannsins sem lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á mánudag eftir alvarleg veikindi liggur ekki fyrir.

Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í samtali við Vísi.

Ferðamaðurinn reyndist smitaður af kórónuveirunni sem veldur sjúkdómnum COVID-19 en var ekki með dæmigerð einkenni sjúkdómsins.

Því er verið að rannsaka hvort að tengsl séu á milli COVID-19 og andlátsins en Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sagt það ólíklegt þótt enn sé ekki hægt að útiloka neitt.

Maðurinn, sem var um fertugt, var á ferðalagi hér á landi ásamt eiginkonu sinni. Hún reyndist einnig smituð af kórónuveirunni og er því komin í einangrun fyrir norðan.

Ljóst er að hugur fjölda landsmanna er hjá konunni. Til að mynda hefur verið stofnuð sérstakur hópur á Facebook, With love from us, þar sem fólk getur vottað konunni samúð sína og sent henni kveðjur.

Tæplega tíu þúsund manns eru í hópnum og hefur fjöldi fólks sent konunni kveðju á þeim tveimur dögum sem liðnir eru frá því síðan var stofnuð.

Aðspurður um líðan konunnar og hvernig verið sé að aðstoða hana segir Víðir:

„Hún er í einangrun en við erum að gera allt sem við getum til að halda utan um hana. Það er auðvitað flókið en við erum með mikið af góðu fólki sem er að gera sitt besta til að aðstoða hana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×