Í dag er annar dagur samkomubanns sem tilkynnt var um fyrir helgi en banninu, sem varir í fjórar vikur, er ætlað að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi.
Starf grunn- og leikskóla hefst aftur um allt land í dag eftir starfsdag sem haldinn var víða í gær svo skólastjórnendur og kennarar gætu skipulagt skólastarfið framundan í samræmi við samkomubannið.
Mismunandi er eftir skólum og sveitarfélögum hversu mikið börnin mæta í leik- eða grunnskóla en ljóst er að fæstir, ef einhverjir, geta mætt alla daga vikunnar í skólann og fengið fulla kennslu. Framhaldsskólar og háskólar eru síðan alveg lokaðir og þar er kennt í fjarkennslu.
Alls hafa nú meira 200 manns greinst hér á landi með kórónuveiruna og rúmlega 2000 manns eru í sóttkví. Þá hafa verið tekin meira en 2000 sýni.
Vísir mun að sjálfsögðu flytja nýjustu fréttir af útbreiðslu veirunnar og áhrifunum sem hún hefur á íslenskt samfélag og úti í heimi. Hægt er að fylgjast með nýjustu tíðindum í vaktinni fyrir neðan.