Þar segir einnig að lögð verði áhersla á þjónustu við börn og ungmenni, m.a. til að efla lýðræðisvitund, auka miðla- og upplýsingalæsi og hvetja til þátttöku í dagskrárgerð og öðru skapandi starfi.
Ríkisútvarpið muni verja 12% af innheimtu útvarpsgjaldi til meðframleiðslu og kaupa á íslensku efni af sjálfstæðum framleiðendum, áhersla verði lögð á varðveislu og miðlun efnis úr safni Ríkisútvarpsins, þjónustu við eldri borgara og þátttöku í þróun máltæknilausna.
Í samningnum eru jafnframt skýrð ýmis atriði sem „óljósari“ voru í fyrri þjónustusamningum, að því er segir í tilkynningu, til dæmis skilgreining á sjálfstæðum framleiðendum, réttur Ríkisútvarpsins til eignarhlutar í samstarfsverkefnum í samræmi við fjárframlög og greiðslur til listamanna í samstarfsverkefnum.
Í sumar var fjallað ítarlega um vanefndir á þjónustusamningnum gagnvart sjálfstæðum framleiðendum. Útvarpsstjóri sagði fullyrðingar um vanefndir þó ekki standast.
„Annars skal við framkvæmd markmiða í þjónustusamningi horft til framboðs á efni og áherslna í dagskrá annarra fjölmiðla og gætt að samkeppnissjónarmiðum, þar sem RÚV sinnir skyldum sem aðrir fjölmiðlar uppfylla ekki á markaðslegum forsendum,“ segir í tilkynningu.
Haft er eftir Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra í tilkynningu að Ríkisútvarpið sé meðvitað um skyldur sínar gagnvart almenningi. Ríkisútvarpið muni áfram sinna sínum „sínum meginhlutverkum af metnaði og í þessum þjónustusamningi eru lagðar línur sem eru í góðum takti við væntingar og óskir fólksins í landinu og stefnu Ríkisútvarpsins.“