Neyðarstig almannavarna var í dag fært niður í hættustig á Seyðisfirði en ofanflóðasérfræðingar Veðurstofu Íslands telja enn hættu á frekari skriðuföllum í bænum. Þá var rýming í bænum aflétt að hluta og hafa 305 íbúar farið aftur inn á þau svæði sem eru ekki skilgreind sem áhættusvæði en alls þurftu 581 að yfirgefa bæinn á föstudag.
Næsti samráðsfundur almannavarna, viðbragðsaðila, veðurstofu og stofnanna verður klukkan tíu í fyrramálið. Þá fer fram opinn rafrænn íbúafundur á þriðjudag fyrir Eskfirðinga, þar sem lögreglustjóri, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og fulltrúi Veðurstofu upplýsa íbúa um ástandið.
Hættustigi almannavarna var aflétt á Eskifirði í dag og hefur rýmingu einnig verið aflétt. Enn er óvissustig almannavarna vegna skriðuhættu í gildi á Austurlandi.