Miðað við aflann úr fiskeldinu í Dýrafirði ætti Þingeyri að upplifa stærra blómaskeið en var þegar togararnir voru tveir.
„Það er verið að tala um tíu þúsund tonn hérna í firðinum,“ segir Sigmundur Fríðar Þórðarson, formaður íbúasamtaka Þingeyrar, í fréttum Stöðvar 2.

„Sléttanes og Framnes, sem voru hér áður, voru með heildarárskvóta átta þúsund tonn. Þeir eru með tíu þúsund tonn hérna, laxeldið hérna í firðinum. Það er ekkert smotterí.“
-Það er að skaffa meiri afla heldur en togararnir tveir gerðu til samans?
„Nákvæmlega,“ segir Sigmundur.
Fjórir þjónustubátar eru gerðir út frá Þingeyri til að sinna fiskeldi Arctic Fish, sem skapar tíu manns atvinnu á staðnum. Formaður íbúasamtakanna vill að nærsamfélagið fái meira. Hann vill sjá gjöld á fiskeldisfyrirtækin fyrir að nota firðina.
„Að þeir greiði gjöld til samfélagsins.“
-Og þá til sveitarfélaganna?
„Þá er ég að tala um til sveitarfélaganna."

„Og eins og þetta er í dag þá fer allur afli héðan til Bíldudals í vinnslu. Það er annað sveitarfélag. Þeir fá að landa og þeir fá fiskinn. Ekki Ísafjarðarbær.
Ísafjarðarbær skaffar aðstöðuna fyrir þá hérna. Það er náttúrlega mikil vinnsla í kringum þetta allt saman hér.
En við viljum sjá miklu, miklu meira. Ég hefði helst viljað vinna þetta allt hérna heima,“ segir formaður íbúasamtaka Þingeyrar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fiskeldi hefur verið lýst sem stærsta tækifæri Vestfjarða til að snúa við byggðaþróun.