Í fyrsta sinn í nærri sextíu ára sögu Flókalundar á Barðaströnd er þar boðið upp á gistingu yfir veturinn. Ástæðan er nýhafin vegagerð á Dynjandisheiði. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Það vakti athygli okkar á ferð um Vestfirði á dögunum að á hlaðinu við Hótel Flókalund var ys og þys en hótelinu hefur venjulega verið lokað um eða eftir miðjan september. Sævar Pálsson og eiginkona hans, ásamt öðrum hjónum, eiga hótelið.
„Já, við höfum yfirleitt lokað í kringum 20. september. En svo í byrjun október, þá opnuðum við aftur fyrir verktaka, sem eru að byrja hérna á Dynjandisheiðinni,“ segir Sævar og jánkar því að þar hafi hlaupið á snærið hjá þeim.

Íslenskir aðalverktakar ákváðu að leigja hluta hótelsins undir vinnuflokk sinn á Dynjandisheiði í stað þess að reisa vinnubúðir.
-Svo gistið þið bara á hóteli?
„Já, það er Flókalundur. Það fer bara vel um okkur þar,“ svarar Pétur Hemmingsen, verkefnisstjóri ÍAV.
-Og heitur pottur í fjörunni?
„Já.“
-Ekkert covid sem stoppar það?
„Nei,“ svarar Pétur.

„Við erum búin að eiga þetta í tuttugu ár og við höfum aldrei verið með heilsársrekstur áður. Og það var aldrei áður en við eignuðust það, heilsársrekstur hérna,“ segir Sævar.
-Er þetta þá eingöngu fyrir verktakana?
„Já, við erum náttúrlega fyrst og fremst fyrir verktakana hérna núna. En við vísum engum á dyr.“
Miklar vegarbætur eru framundan á Vestfjörðum. En gætu þær leitt til þess að Flókalundur verði heilsárshótel í framtíðinni?
„Ég á von á því, já, að það verði. En það eru einhver ár í það. En ég á von á því að það verði í framtíðinni,“ svarar Sævar Pálsson, einn af eigendum Hótels Flókalundar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Flókalundur byrjaði sem veitingaskáli árið 1961 en árið 1966 var byrjað að leigja þar út gistiherbergi.
Sumarið 2014 var fjallað um Hótel Flókalund, vestfirska vegi og heita pottinn í fjörunni í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér: