Þau tímamót urðu í nótt að meirihluti þeirra sem greinst hafa með kórónuveirusmit í heiminum eru nú utan Kína.
John Hopkins háskóli, sem haldið hefur utan skráningu smita eftir löndum, segir að alls séu nú skráð 169 þúsund smit í heiminum og þar af 81 þúsund í Kína.
Alls hafa 6.500 manns látist af völdum veirunnar samkvæmt opinberum tölum – þar af 3.200 í Kína. Þau þrjú Evrópuríki sem verst hafa farið út úr kórónuveirusmitinu enn sem komið er, Ítalía, Spánn og Frakkland, tilkynntu öll um metfjölda dauðsfalla af völdum COVID-19 veikinnar í gær.
Á Ítalíu létu 368 manns lífið en þar hafa alls 1.809 látið lífið. Á Spáni létust 97 og er heildartala látinna þar í landi komin í 288. Og í Frakklandi létust 29 og þar hafa 120 látið lífið í heildina.
Á Bretlandseyjum létust fjórtán í gær sem einnig er mesti fjöldi á einum degi til þessa en þar hafa nú 35 látist af völdum kórónuveirunnar. Dauðsföll af völdum veirunnar á heimsvísu eru nú komin yfir 6.400 og smitin tæplega 170 þúsund.
Fleiri lönd í Evrópu hafa nú gripið til þess ráðs að loka landamærum sínum að hluta eða öllu leyti. Í Þýskalandi verður gripið til aðgerða í dag og Portúgalir ætla að loka landamærunum að Spáni.
Á Íslandi er nú fjöldi skráðra smita 180.