Anton Sveinn McKee setti í dag Íslands- og Norðurlandamet í 200 metra bringusundi er hann keppti í Búdapest í Ungverjalandi. Átti hann metið fyrir.
Anton Sveinn hefur farið mikinn á ÍSL-mótaröðinni sem fram fer í Búdapest þessa dagana. Bætti hann til að mynda eigið Íslands- og Norðurlandamet í 100 metra bringusundi á dögunum.
Þá setti hann einnig Íslands- og Norðurlandamet í 200 metra bringusundi.
Það entist ekki lengi en Anton Sveinn sló eigin met aftur í dag. Synti hann á 2:01,65 í dag sem er átta úr hundraðshlutum hraðar en þegar hann sló metið í vikunni.
Það er ljóst að Anton er í hörkuformi og verður spennandi að fylgjast með þessum 26 ára gamla kappa næstu misseri er fleiri Íslandsmet gætu legið í valnum.