Allt bendir til þess að karlmaður um þrítugt sem lést í Kópavogi á mánudaginn hafi fest sig í söfnunargámi Rauða krossins þegar hann var að teygja sig ofan í hann. Þetta segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild lögreglu, í samtali við Vísi.
„Það er ekki hægt að sjá neitt annað en að þetta hafi verið slys,“ segir Karl Steinar.
Viðkomandi hafi verið að teygja sig eftir einhverju ofan í gámnum þegar hann festi hönd sína. Gámurinn er staðsettur rétt vestan við tónlistarhúsið Salinn í vesturbænum í Kópavogi.
Endanlegar niðurstöður úr krufningu liggja ekki fyrir og gætu dregist vegna anna í þeirri deild. Nefnir hann andlát manns í húsbíl sem brann sem annað nýlegt verkefni á borði réttarlæknis.
Óvenju margar réttarkrufningar hafa verið gerðar á árinu og óútskýrðum dauðsföllum hefur fjölgað. Aðeins einn réttarlæknir sinnir öllu landinu eins og fjallað var um í fréttum Stöðvar 2 á dögunum.
Karl Steinar segist ekki hafa heyrt af svona slysi hér á landi áður. Merkingar séu á gámi Rauða krossins sem vari við því að fólk reyni að teygja sig ofan í gáminn.
Karlmaðurinn fannst klukkan átta að morgni. Karl Steinar segir ekki ljóst á þessari stundu hve lengi maðurinn hafi verið fastur í gámnum. Þá hafði hann ekki upplýsingar um hvernig málið var tilkynnt. Líklegast hefði lögreglu borist tilkynning frá vegfaranda.