Innlent

Stærsta ár í ættleiðingum síðan 2013

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ekki hafa verið fleiri ættleiðingar hér á landi síðan árið 2013.
Ekki hafa verið fleiri ættleiðingar hér á landi síðan árið 2013. Vísir/Vilhelm

49 ættleiðingar voru á Íslandi árið 2019. Þetta eru aðeins fleiri en árið 2018 en þá voru ættleiðingar 46. Árið 2019 voru stjúpættleiðingar 31 en frumættleiðingar 18. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar.

Frumættleiðingar frá útlöndum voru níu árið 2019 og voru þær fleiri en síðustu tvö ár þar á undan þegar þær voru einungis fjórar hvort ár, en frumættleiðingar frá útlöndum höfðu aldrei verið svo fáar á einu ári. Með hugtakinu frumættleiðing er átt við ættleiðingu á barni sem ekki er barn maka umsækjanda.

Fyrir utan árin 2017-2018 voru frumættleiðingar frá útlöndum fæstar 1992 þegar einungs fimm börn voru ættleidd erlendis frá. Flest börn voru ættleidd frá útlöndum árið 2005 þegar 41 frumættleiðing átti sér stað. Undanfarin ár hafa flest ættleidd börn verið frá Tékklandi og árið 2019 voru einnig flestar ættleiðingar þaðan eða sjö.

Stjúpættleiðingar árið 2019 voru 31 sem er fækkun um tíu frá árinu á undan. Í öllum tilvikum var stjúpfaðir kjörforeldri en það hefur jafnan verið algengast. Frumættleiðingar innanlands voru níu árið 2019. Með hugtakinu stjúpættleiðing er átt við ættleiðingu á barni (eða kjörbarni) maka umsækjanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×