Laust fyrir klukkan hálfátta í gærkvöldi var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um mann í sóttkví sem var að strjúka frá sóttvarnarhúsinu á Rauðarárstíg.
Að því er segir í dagbók lögreglu fannst maðurinn við Hlemm og voru honum gefin fyrirmæli um að koma sér aftur í sóttvarnarhúsið sem hann og gerði.
Um klukkutíma síðar, eða klukkan hálfníu, barst lögreglunni svo tilkynning um átök í sóttvarnarhúsinu. Var gestur hússins ósáttur við vistina í húsinu en hann róaðist eftir að hafa fengið tiltal frá lögreglu.
Skömmu fyrir klukkan hálftíu var síðan tilkynnt um konu sem var að trufla AA-fund í Tjarnargötunni. Lögreglan ók konunni til síns heima.
Þá var tilkynnt um rúðubrot í íbúðarhúsi í miðbænum laust fyrir hálfellefu í gærkvöldi en steini hafði verið kastað inn um stofuglugga.
Klukkan sjö í gærkvöldi var síðan tilkynnt um eld við Skátaheimili í Hafnarfirði. Eldurinn reyndist vera varðeldur.
Upp úr klukkan fjögur í nótt var tilkynnt um umferðarslys í Kópavogi. Ökumaður ók bíl sínum á umferðarljós en fór af vettvangi. Lögreglan stöðvaði hann skömmu síðar og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar.