Íbúi á Hrafnistu Ísafold í Garðabæ greindist með kórónuveirusmit í kvöld. Allir íbúar Ísafoldar eru nú í sóttkví og hefur heimilinu verið lokað.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá neyðarstjórn Hrafnistu fyrr í kvöld. Þar segir að í samræmi við verkferla hafi verið ræst ákveðið viðbúnaðarstig líkt og gert er ráð fyrir þegar smit kemur upp hjá íbúum eða starfsfólki.
Unnið sé eftir verklagi neyðarstjórnarinnar sem er á vakt allan sólarhringinn í tilfellum sem þessum.
Til þess að tryggja gæði og öryggi íbúa og starfsmanna hefur heimilinu verið lokað. Líkt og áður sagði eru allir íbúar í sóttkví á meðan unnið er að nánari greiningu. Hrafnista vinnur nú með rakningarteymi almannavarna til þess að stöðva frekari útbreiðslu veirunnar.