Skoraði á þingmenn að taka nýja stjórnarskrá til afgreiðslu Kolbeinn Tumi Daðason skrifar 1. október 2020 16:26 Guðni Th. Jóhannesson við setningu Alþingis í dag. Vísir/Vilhelm Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gaf stjórnarskrá Íslands nokkuð vægi í bland við baráttuorð á tímum kórónuveirufaraldursins við setningu Alþingis í dag. Hann sagði brýnt að þingmenn sýndu í verki að þeir geti tekið tillögur að breytingum á stjórnarskrá til efnislegrar afgreiðslu. „Vangeta gæti jafnvel talist þinginu til vansa,“ sagði Guðni. Guðni sagði að við setningu Alþingis fyrir rúmu ári hefði engan órað fyrir þeim hremmingum sem á landinu hefði dunið í formi kórónuveirufaraldursins. Önnur mál hefðu verið efst í huga. „Nú er allt breytt. Nú mótar farsóttin líf okkar að miklu leyti. Hér og úti í heimi hefur hún orðið fólki að aldurtila. Margir hafa veikst illa og áfram varir glíma okkar við þennan vágest.“ Ræðuna í heild má sjá hér og lesa neðst í fréttinni. Megi læra af eldri kynslóðum Gremju gætti víða, fólk hefði misst vinnu en án aðgerða hefðum við þó flotið að feigðarósi. „Við völdum að vernda líf og heilsu almennings eftir bestu getu.“ Miklu skipti að sýna áfram þrautseigju, æðruleysi og þor. Þar megi læra af eldri kynslóðum þessa lands sem láti ekki hvað sem er koma sér úr jafnvægi. Forseti Íslands sagði að vel mætti læra af eldri kynslóðum þessa lands sem kippi sér ekki upp við hvað sem er.Vísir/Vilhelm Guðni færði heilbrigðisstarfsfólki og mun fleirum þakkir fyrir sitt framlag í baráttunni. Þekking og samvinna vísi veginn, bæði hér heima og í alþjóðlegu samfélagi. Beita rökum en forðast fals Guðni rifjaði upp orð sín við þingsetningu í fyrra um að ágreiningur einkenndi öflugt þing. Bann við honum væri haldreipi hinna þröngsýnu, þvingunartól harðstjóranna. „Þau orð hljóta enn að teljast í góðu gildi og vissulega höfum við tekist á um ýmis álitamál þessa mæðusömu veirudaga. Því skulum við halda áfram, beita rökum og forðast fals. En saga síðustu mánaða er þó í ríkum mæli saga samkenndar, samúðar og samstöðu. Einhuginn fundum við svo vel í vor. Hans þurfum við áfram að njóta, nú þegar vetur nálgast.“ Guðni ræddi störf á Alþingi og skoðanaskipti. Hvatti hann þingmenn til að beita rökum en forðast fals.Vísir/Vilhelm Vilji til samstöðu geti þó hamlað breytingum og leitt til kyrrstöðu. Sannfæring geti eins verið lofsamleg... „en er samt ekki varhugavert að standa gegn breytingum ef þær fullnægja ekki óskum fólks og þörfum í einu og öllu? Þannig synjunarvald virðist ekki heldur til framfara fallið, sú leið til stöðnunar að hafna málamiðlunum og áfangasigrum, að velja frekar það versta en það næstbesta.“ Stjórnarskrá aldrei meitluð í stein Vék Guðni sér að stjórnarskrá Íslands og sagði alla hafa séð fyrir sér að hún tæki breytingum í tímans rás og yrði tekin til gagngerðrar endurskoðunar. „Í tímans rás hefur verið ráðist í ýmsar umbætur, yfirleitt í góðum friði en ekki alltaf. Og vart verður því haldið fram með gildum rökum að þegar stjórnarskránni var síðast breytt á umtalsverðan máta, undir lok síðustu aldar, hafi verkið verið fullkomnað. Enn er verk að vinna – ætíð er verk að vinna. Stjórnarskrá verður aldrei meitluð í stein,“ sagði forsetinn. Reikna mætti með frumvarpi þingmanna í vetur um breytingar á stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs sem kynnti þær fyrir þinginu fyrir áratug. Þær nutu svo stuðning sí ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þá liggur fyrir að frumvörp verða flutt um ákvæði í stjórnarskrá sem lúta að 3 auðlindum, umhverfisvernd og íslenskri tungu, auk breytinga á greinum um völd og verksvið þjóðhöfðingjans. Er þeim ætlað að draga upp skýrari mynd af því stjórnarfari sem ríkir í raun en breyta því þó ekki í megindráttum. Gott var að finna í forsetakjöri í sumar að Íslendingar una vel við stöðu þessa embættis í stjórnskipun okkar.“ Fleiri þættir falli undir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, meðal annars möguleg nýskipan á því hvernig henni er breytt og þjóðaratkvæði um lög að ósk hluta kjósenda. „Mikil er hún því ætíð, ábyrgð Alþingis á þessum vettvangi. En nú um stundir virðist brýnast að þingmenn sýni í verki að þeir geti tekið þær tillögur að breytingum á stjórnarskrá, sem fram koma, til efnislegrar afgreiðslu. Vangeta gæti jafnvel talist þinginu til vansa.“ Ávarp forseta í heild má sjá hér að neðan „Háttvirtu alþingismenn! Ég óska ykkur velfarnaðar í vandasömum störfum. Ég vona að þingstörfin verði farsæl, landi og lýð til heilla. Rúmt ár er nú liðið frá því að þing var síðast sett. Þá óraði engan fyrir þeim hremmingum sem á okkur hafa dunið. Þá hafði veiran skæða ekki látið á sér kræla. Þá voru önnur mál efst í okkar huga. Nú er allt breytt. Nú mótar farsóttin líf okkar að miklu leyti. Hér og úti í heimi hefur hún orðið fólki að aldurtila. Margir hafa veikst illa og áfram varir glíma okkar við þennan vágest. Brýnar varnir gegn veirunni hafa valdið búsifjum. Gremju gætir og því miður berast okkur fregnir um ýmsar raunir, aukið ofbeldi á heimilum, kvíða og vanlíðan. Fólk hefur misst vinnu, fyrirtæki og einyrkjar eru í ærnum vanda, ekki síst á vettvangi ferðaþjónustu og verslunar, menningar og afþreyingar. Án aðgerða hefðum við þó flotið að feigðarósi. Við völdum að vernda líf og heilsu almennings eftir bestu getu. Nú varðar miklu að fólk sýni áfram þrautseigju, æðruleysi og þor. Mikið megum við þá læra af eldri kynslóðum þessa lands, þeim sem hafa reynt sitthvað á langri ævi og láta ekki hvað sem er koma sér úr jafnvægi. Síðustu mánuði höfum við Íslendingar átt ótalmörgum gott að gjalda. Ég veit að ég mæli fyrir hönd heillar þjóðar þegar ég þakka starfsfólki á sviði heilbrigðis, aðhlynningar og velferðar þeirra drjúgu verk. Þökkum einnig kennurum og stjórnendum, skólaliðum, ræstitæknum og öllum öðrum sem sáu til þess að skólastarfi hefur verið haldið uppi, frá leikskólum að háskólastigi. Þá á starfsfólk í verslun og þjónustu þakkir skildar, í nánd við aðra daginn út og inn. Enn fleiri mætti að sjálfsögðu nefna sem létu og láta til sín taka í þjóðarþágu. Við munum hafa betur í baráttu okkar við skaðvaldinn. Um víða veröld vinna vísindamenn að gerð bóluefnis og leita líka annarra lyfja eða lækninga. Hér á Íslandi tekur starfslið Íslenskrar erfðagreiningar, Landspítala og háskólanna þátt í þeirri vinnu. Þekking vísar veginn og samvinna ekki síður – samvinna á alþjóðavettvangi og samvinna í okkar ágæta samfélagi. Nú má reyndar vera að alþingismenn, glögga og ógleymna, rámi í ræðu mína við þingsetningu í fyrra. Þá komst ég svo að orði að ágreiningur einkenndi öflugt þing og öflugt samfélag, að bann við honum væri haldreipi hinna þröngsýnu, þvingunartól harðstjóranna. Þau orð hljóta enn að teljast í góðu gildi og vissulega höfum við tekist á um ýmis álitamál þessa mæðusömu veirudaga. Því skulum við halda áfram, beita rökum og forðast fals. En saga síðustu mánaða er þó í ríkum mæli saga samkenndar, samúðar og samstöðu. Einhuginn fundum við svo vel í vor. Hans þurfum við áfram að njóta, nú þegar vetur nálgast. Já, samstaða getur verið lofsverð, hún getur reynst kraftmikið hreyfiafl. En hitt getur líka gerst að viljinn til samstöðu hamli breytingum, leiði til kyrrstöðu. Illt væri að una við það til eilífðarnóns í mikilvægum málum að engu skuli hnikað vegna þess að full eining sé ekki fyrir hendi. Þannig synjunarvald samræmist vart lýðræðislegum stjórnarháttum. Sannfæring getur verið eins lofsamleg og samstaða ‒ en er samt ekki varhugavert að standa gegn breytingum ef þær fullnægja ekki óskum fólks og þörfum í einu og öllu? Þannig synjunarvald virðist ekki heldur til framfara fallið, sú leið til stöðnunar að hafna málamiðlunum og áfangasigrum, að velja frekar það versta en það næstbesta. Á Alþingi er þungamiðja hins pólitíska valds á Íslandi. Í stjórnskipun okkar er málum nú svo háttað, eins og alkunna er, að verði breytingar á stjórnarskrá samþykktar hér þarf nýtt þing að staðfesta þá niðurstöðu að loknum almennum kosningum. Langt mál mætti flytja, háttvirtu alþingismenn, um uppruna og þróun lýðveldisstjórnarskrárinnar. Segja má að sagan hefjist með því að þeir, sem sömdu hana og ræddu hér á Alþingi og víðar, sáu nær allir fyrir sér að hún yrði tekin til gagngerðrar endurskoðunar. Í tímans rás hefur verið ráðist í ýmsar umbætur, yfirleitt í góðum friði en ekki alltaf. Og vart verður því haldið fram með gildum rökum að þegar stjórnarskránni var síðast breytt á umtalsverðan máta, undir lok síðustu aldar, hafi verkið verið fullkomnað. Enn er verk að vinna – ætíð er verk að vinna. Stjórnarskrá verður aldrei meitluð í stein. Í vetur munu einhverjir þingmenn vísast mæla fyrir því að landinu verði sett ný stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs sem voru kynntar þinginu fyrir tæpum áratug og nutu síðar stuðnings í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá liggur fyrir að frumvörp verða flutt um ákvæði í stjórnarskrá sem lúta að 3 auðlindum, umhverfisvernd og íslenskri tungu, auk breytinga á greinum um völd og verksvið þjóðhöfðingjans. Er þeim ætlað að draga upp skýrari mynd af því stjórnarfari sem ríkir í raun en breyta því þó ekki í megindráttum. Gott var að finna í forsetakjöri í sumar að Íslendingar una vel við stöðu þessa embættis í stjórnskipun okkar. Fleiri þættir falla undir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, meðal annars möguleg nýskipan á því hvernig henni er breytt og þjóðaratkvæði um lög að ósk hluta kjósenda. Mikil er hún því ætíð, ábyrgð Alþingis á þessum vettvangi. En nú um stundir virðist brýnast að þingmenn sýni í verki að þeir geti tekið þær tillögur að breytingum á stjórnarskrá, sem fram koma, til efnislegrar afgreiðslu. Vangeta gæti jafnvel talist þinginu til vansa. Ég ítreka góðar óskir mínar til ykkar, ágætu alþingismenn. Vissulega eru blikur á lofti í þjóðlífinu en við höfum séð það svartara og njótum þess að hér eru meginstoðir samfélagsins traustar. Við eigum auðlindir til sjávar, sveita og heiða, að ekki sé minnst á auðæfi hugar og handar. Við skulum því bera okkur vel þótt úti séu stormur og él. Ég bið þingheim allan að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar. Hinn 24. september síðastliðinn var gefið út svofellt bréf: „Forseti Íslands gjörir kunnugt: Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar fimmtudaginn 1. október 2020. Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 13:30. Gjört á Bessastöðum 24. september 2020. Guðni Th. Jóhannesson. Katrín Jakobsdóttir. Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman fimmtudaginn 1. október 2020.“ Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett.“ Alþingi Forseti Íslands Faraldur kórónuveiru (COVID-19) Stjórnarskrá Mest lesið Vaktin: Bílaplanið þakið hrauni Innlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Telur Bláa lónið öruggt vegna varnargarðanna Innlent Samfylkingin bætir við sig í fyrsta sinn síðan í maí og Píratar úti Innlent „Þetta var bara besta stund kosningabaráttunnar til þessa“ Innlent Segir komið fram við sig eins og glæpamann fyrir að vilja vera heima í Grindavík Innlent Kort af staðsetningu gossprungunnar Innlent Magnaðar myndir sýna Grindavíkurveg undir hrauni Innlent Refsing Jaguars þyngd verulega Innlent Siðanefndin klofin í máli Gaetz en gögn farin að leka Erlent Fleiri fréttir Funda áfram hjá sáttasemjara á morgun „Fólki er frekar misboðið“ Gosið gætið varað í nokkrar vikur Endalok goshrinunnar teygist inn á mitt næsta ár Bílaplan á bólakafi, könnun og frambjóðanda misboðið Höfðu ekki áhyggjur af lóninu sjálfu Skilorðsbundinn dómur yfir strætóbílstjóra staðfestur Veit ekki hver getur tekið við gögnunum Refsing Jaguars þyngd verulega Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur takist á í bergmálshelli Samið um sjálfstæða leikskóla í Reykjavík Vilja byggja vísindasetur fyrir almenning í Háskólabíói Útlit fyrir að varnir Bláa lónsins haldi Hart tekist á um fyrirætlanir Heidelberg í Þorlákshöfn Bein útsending: Hver er sýn flokkanna á lífskjör eldra fólks? Verkföll boðuð í fjórum grunnskólum í janúar „Þetta var bara besta stund kosningabaráttunnar til þessa“ Komust langt að gosinu því það gleymdist að loka veginum Nýsköpun eða „rándýr aðgangur“?: 300.000 króna heilskimun aftur á boðstólnum Telur Bláa lónið öruggt vegna varnargarðanna Káfaði á konu á salerni skemmtistaðar Segir komið fram við sig eins og glæpamann fyrir að vilja vera heima í Grindavík „Ekki rólegur með hraunið ofan á“ Samfylkingin bætir við sig í fyrsta sinn síðan í maí og Píratar úti Varar við sprengjum á svæðinu við gosstöðvarnar Glóðvolg könnun og hraun rennur enn á ný Gandri fær grænt ljós Magnaðar myndir sýna Grindavíkurveg undir hrauni Loftslagsáætlun Íslands sögð ómarkviss og bjartsýn úr hófi fram Borgarísjaki en enginn björn Sjá meira
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gaf stjórnarskrá Íslands nokkuð vægi í bland við baráttuorð á tímum kórónuveirufaraldursins við setningu Alþingis í dag. Hann sagði brýnt að þingmenn sýndu í verki að þeir geti tekið tillögur að breytingum á stjórnarskrá til efnislegrar afgreiðslu. „Vangeta gæti jafnvel talist þinginu til vansa,“ sagði Guðni. Guðni sagði að við setningu Alþingis fyrir rúmu ári hefði engan órað fyrir þeim hremmingum sem á landinu hefði dunið í formi kórónuveirufaraldursins. Önnur mál hefðu verið efst í huga. „Nú er allt breytt. Nú mótar farsóttin líf okkar að miklu leyti. Hér og úti í heimi hefur hún orðið fólki að aldurtila. Margir hafa veikst illa og áfram varir glíma okkar við þennan vágest.“ Ræðuna í heild má sjá hér og lesa neðst í fréttinni. Megi læra af eldri kynslóðum Gremju gætti víða, fólk hefði misst vinnu en án aðgerða hefðum við þó flotið að feigðarósi. „Við völdum að vernda líf og heilsu almennings eftir bestu getu.“ Miklu skipti að sýna áfram þrautseigju, æðruleysi og þor. Þar megi læra af eldri kynslóðum þessa lands sem láti ekki hvað sem er koma sér úr jafnvægi. Forseti Íslands sagði að vel mætti læra af eldri kynslóðum þessa lands sem kippi sér ekki upp við hvað sem er.Vísir/Vilhelm Guðni færði heilbrigðisstarfsfólki og mun fleirum þakkir fyrir sitt framlag í baráttunni. Þekking og samvinna vísi veginn, bæði hér heima og í alþjóðlegu samfélagi. Beita rökum en forðast fals Guðni rifjaði upp orð sín við þingsetningu í fyrra um að ágreiningur einkenndi öflugt þing. Bann við honum væri haldreipi hinna þröngsýnu, þvingunartól harðstjóranna. „Þau orð hljóta enn að teljast í góðu gildi og vissulega höfum við tekist á um ýmis álitamál þessa mæðusömu veirudaga. Því skulum við halda áfram, beita rökum og forðast fals. En saga síðustu mánaða er þó í ríkum mæli saga samkenndar, samúðar og samstöðu. Einhuginn fundum við svo vel í vor. Hans þurfum við áfram að njóta, nú þegar vetur nálgast.“ Guðni ræddi störf á Alþingi og skoðanaskipti. Hvatti hann þingmenn til að beita rökum en forðast fals.Vísir/Vilhelm Vilji til samstöðu geti þó hamlað breytingum og leitt til kyrrstöðu. Sannfæring geti eins verið lofsamleg... „en er samt ekki varhugavert að standa gegn breytingum ef þær fullnægja ekki óskum fólks og þörfum í einu og öllu? Þannig synjunarvald virðist ekki heldur til framfara fallið, sú leið til stöðnunar að hafna málamiðlunum og áfangasigrum, að velja frekar það versta en það næstbesta.“ Stjórnarskrá aldrei meitluð í stein Vék Guðni sér að stjórnarskrá Íslands og sagði alla hafa séð fyrir sér að hún tæki breytingum í tímans rás og yrði tekin til gagngerðrar endurskoðunar. „Í tímans rás hefur verið ráðist í ýmsar umbætur, yfirleitt í góðum friði en ekki alltaf. Og vart verður því haldið fram með gildum rökum að þegar stjórnarskránni var síðast breytt á umtalsverðan máta, undir lok síðustu aldar, hafi verkið verið fullkomnað. Enn er verk að vinna – ætíð er verk að vinna. Stjórnarskrá verður aldrei meitluð í stein,“ sagði forsetinn. Reikna mætti með frumvarpi þingmanna í vetur um breytingar á stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs sem kynnti þær fyrir þinginu fyrir áratug. Þær nutu svo stuðning sí ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þá liggur fyrir að frumvörp verða flutt um ákvæði í stjórnarskrá sem lúta að 3 auðlindum, umhverfisvernd og íslenskri tungu, auk breytinga á greinum um völd og verksvið þjóðhöfðingjans. Er þeim ætlað að draga upp skýrari mynd af því stjórnarfari sem ríkir í raun en breyta því þó ekki í megindráttum. Gott var að finna í forsetakjöri í sumar að Íslendingar una vel við stöðu þessa embættis í stjórnskipun okkar.“ Fleiri þættir falli undir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, meðal annars möguleg nýskipan á því hvernig henni er breytt og þjóðaratkvæði um lög að ósk hluta kjósenda. „Mikil er hún því ætíð, ábyrgð Alþingis á þessum vettvangi. En nú um stundir virðist brýnast að þingmenn sýni í verki að þeir geti tekið þær tillögur að breytingum á stjórnarskrá, sem fram koma, til efnislegrar afgreiðslu. Vangeta gæti jafnvel talist þinginu til vansa.“ Ávarp forseta í heild má sjá hér að neðan „Háttvirtu alþingismenn! Ég óska ykkur velfarnaðar í vandasömum störfum. Ég vona að þingstörfin verði farsæl, landi og lýð til heilla. Rúmt ár er nú liðið frá því að þing var síðast sett. Þá óraði engan fyrir þeim hremmingum sem á okkur hafa dunið. Þá hafði veiran skæða ekki látið á sér kræla. Þá voru önnur mál efst í okkar huga. Nú er allt breytt. Nú mótar farsóttin líf okkar að miklu leyti. Hér og úti í heimi hefur hún orðið fólki að aldurtila. Margir hafa veikst illa og áfram varir glíma okkar við þennan vágest. Brýnar varnir gegn veirunni hafa valdið búsifjum. Gremju gætir og því miður berast okkur fregnir um ýmsar raunir, aukið ofbeldi á heimilum, kvíða og vanlíðan. Fólk hefur misst vinnu, fyrirtæki og einyrkjar eru í ærnum vanda, ekki síst á vettvangi ferðaþjónustu og verslunar, menningar og afþreyingar. Án aðgerða hefðum við þó flotið að feigðarósi. Við völdum að vernda líf og heilsu almennings eftir bestu getu. Nú varðar miklu að fólk sýni áfram þrautseigju, æðruleysi og þor. Mikið megum við þá læra af eldri kynslóðum þessa lands, þeim sem hafa reynt sitthvað á langri ævi og láta ekki hvað sem er koma sér úr jafnvægi. Síðustu mánuði höfum við Íslendingar átt ótalmörgum gott að gjalda. Ég veit að ég mæli fyrir hönd heillar þjóðar þegar ég þakka starfsfólki á sviði heilbrigðis, aðhlynningar og velferðar þeirra drjúgu verk. Þökkum einnig kennurum og stjórnendum, skólaliðum, ræstitæknum og öllum öðrum sem sáu til þess að skólastarfi hefur verið haldið uppi, frá leikskólum að háskólastigi. Þá á starfsfólk í verslun og þjónustu þakkir skildar, í nánd við aðra daginn út og inn. Enn fleiri mætti að sjálfsögðu nefna sem létu og láta til sín taka í þjóðarþágu. Við munum hafa betur í baráttu okkar við skaðvaldinn. Um víða veröld vinna vísindamenn að gerð bóluefnis og leita líka annarra lyfja eða lækninga. Hér á Íslandi tekur starfslið Íslenskrar erfðagreiningar, Landspítala og háskólanna þátt í þeirri vinnu. Þekking vísar veginn og samvinna ekki síður – samvinna á alþjóðavettvangi og samvinna í okkar ágæta samfélagi. Nú má reyndar vera að alþingismenn, glögga og ógleymna, rámi í ræðu mína við þingsetningu í fyrra. Þá komst ég svo að orði að ágreiningur einkenndi öflugt þing og öflugt samfélag, að bann við honum væri haldreipi hinna þröngsýnu, þvingunartól harðstjóranna. Þau orð hljóta enn að teljast í góðu gildi og vissulega höfum við tekist á um ýmis álitamál þessa mæðusömu veirudaga. Því skulum við halda áfram, beita rökum og forðast fals. En saga síðustu mánaða er þó í ríkum mæli saga samkenndar, samúðar og samstöðu. Einhuginn fundum við svo vel í vor. Hans þurfum við áfram að njóta, nú þegar vetur nálgast. Já, samstaða getur verið lofsverð, hún getur reynst kraftmikið hreyfiafl. En hitt getur líka gerst að viljinn til samstöðu hamli breytingum, leiði til kyrrstöðu. Illt væri að una við það til eilífðarnóns í mikilvægum málum að engu skuli hnikað vegna þess að full eining sé ekki fyrir hendi. Þannig synjunarvald samræmist vart lýðræðislegum stjórnarháttum. Sannfæring getur verið eins lofsamleg og samstaða ‒ en er samt ekki varhugavert að standa gegn breytingum ef þær fullnægja ekki óskum fólks og þörfum í einu og öllu? Þannig synjunarvald virðist ekki heldur til framfara fallið, sú leið til stöðnunar að hafna málamiðlunum og áfangasigrum, að velja frekar það versta en það næstbesta. Á Alþingi er þungamiðja hins pólitíska valds á Íslandi. Í stjórnskipun okkar er málum nú svo háttað, eins og alkunna er, að verði breytingar á stjórnarskrá samþykktar hér þarf nýtt þing að staðfesta þá niðurstöðu að loknum almennum kosningum. Langt mál mætti flytja, háttvirtu alþingismenn, um uppruna og þróun lýðveldisstjórnarskrárinnar. Segja má að sagan hefjist með því að þeir, sem sömdu hana og ræddu hér á Alþingi og víðar, sáu nær allir fyrir sér að hún yrði tekin til gagngerðrar endurskoðunar. Í tímans rás hefur verið ráðist í ýmsar umbætur, yfirleitt í góðum friði en ekki alltaf. Og vart verður því haldið fram með gildum rökum að þegar stjórnarskránni var síðast breytt á umtalsverðan máta, undir lok síðustu aldar, hafi verkið verið fullkomnað. Enn er verk að vinna – ætíð er verk að vinna. Stjórnarskrá verður aldrei meitluð í stein. Í vetur munu einhverjir þingmenn vísast mæla fyrir því að landinu verði sett ný stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs sem voru kynntar þinginu fyrir tæpum áratug og nutu síðar stuðnings í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá liggur fyrir að frumvörp verða flutt um ákvæði í stjórnarskrá sem lúta að 3 auðlindum, umhverfisvernd og íslenskri tungu, auk breytinga á greinum um völd og verksvið þjóðhöfðingjans. Er þeim ætlað að draga upp skýrari mynd af því stjórnarfari sem ríkir í raun en breyta því þó ekki í megindráttum. Gott var að finna í forsetakjöri í sumar að Íslendingar una vel við stöðu þessa embættis í stjórnskipun okkar. Fleiri þættir falla undir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, meðal annars möguleg nýskipan á því hvernig henni er breytt og þjóðaratkvæði um lög að ósk hluta kjósenda. Mikil er hún því ætíð, ábyrgð Alþingis á þessum vettvangi. En nú um stundir virðist brýnast að þingmenn sýni í verki að þeir geti tekið þær tillögur að breytingum á stjórnarskrá, sem fram koma, til efnislegrar afgreiðslu. Vangeta gæti jafnvel talist þinginu til vansa. Ég ítreka góðar óskir mínar til ykkar, ágætu alþingismenn. Vissulega eru blikur á lofti í þjóðlífinu en við höfum séð það svartara og njótum þess að hér eru meginstoðir samfélagsins traustar. Við eigum auðlindir til sjávar, sveita og heiða, að ekki sé minnst á auðæfi hugar og handar. Við skulum því bera okkur vel þótt úti séu stormur og él. Ég bið þingheim allan að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar. Hinn 24. september síðastliðinn var gefið út svofellt bréf: „Forseti Íslands gjörir kunnugt: Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar fimmtudaginn 1. október 2020. Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 13:30. Gjört á Bessastöðum 24. september 2020. Guðni Th. Jóhannesson. Katrín Jakobsdóttir. Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman fimmtudaginn 1. október 2020.“ Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett.“
Alþingi Forseti Íslands Faraldur kórónuveiru (COVID-19) Stjórnarskrá Mest lesið Vaktin: Bílaplanið þakið hrauni Innlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Telur Bláa lónið öruggt vegna varnargarðanna Innlent Samfylkingin bætir við sig í fyrsta sinn síðan í maí og Píratar úti Innlent „Þetta var bara besta stund kosningabaráttunnar til þessa“ Innlent Segir komið fram við sig eins og glæpamann fyrir að vilja vera heima í Grindavík Innlent Kort af staðsetningu gossprungunnar Innlent Magnaðar myndir sýna Grindavíkurveg undir hrauni Innlent Refsing Jaguars þyngd verulega Innlent Siðanefndin klofin í máli Gaetz en gögn farin að leka Erlent Fleiri fréttir Funda áfram hjá sáttasemjara á morgun „Fólki er frekar misboðið“ Gosið gætið varað í nokkrar vikur Endalok goshrinunnar teygist inn á mitt næsta ár Bílaplan á bólakafi, könnun og frambjóðanda misboðið Höfðu ekki áhyggjur af lóninu sjálfu Skilorðsbundinn dómur yfir strætóbílstjóra staðfestur Veit ekki hver getur tekið við gögnunum Refsing Jaguars þyngd verulega Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur takist á í bergmálshelli Samið um sjálfstæða leikskóla í Reykjavík Vilja byggja vísindasetur fyrir almenning í Háskólabíói Útlit fyrir að varnir Bláa lónsins haldi Hart tekist á um fyrirætlanir Heidelberg í Þorlákshöfn Bein útsending: Hver er sýn flokkanna á lífskjör eldra fólks? Verkföll boðuð í fjórum grunnskólum í janúar „Þetta var bara besta stund kosningabaráttunnar til þessa“ Komust langt að gosinu því það gleymdist að loka veginum Nýsköpun eða „rándýr aðgangur“?: 300.000 króna heilskimun aftur á boðstólnum Telur Bláa lónið öruggt vegna varnargarðanna Káfaði á konu á salerni skemmtistaðar Segir komið fram við sig eins og glæpamann fyrir að vilja vera heima í Grindavík „Ekki rólegur með hraunið ofan á“ Samfylkingin bætir við sig í fyrsta sinn síðan í maí og Píratar úti Varar við sprengjum á svæðinu við gosstöðvarnar Glóðvolg könnun og hraun rennur enn á ný Gandri fær grænt ljós Magnaðar myndir sýna Grindavíkurveg undir hrauni Loftslagsáætlun Íslands sögð ómarkviss og bjartsýn úr hófi fram Borgarísjaki en enginn björn Sjá meira