Kolmónoxíðeitrun varð sextán kolanámumönnum að bana í suðvestanverðu Kína í dag. Aðeins einn þeirra sem festust í námunni komst lífs af og er hann sagður á sjúkrahúsi. Kínverskar námur eru einar þær hættulegustu í heiminum fyrir starfsmenn.
Gasið er sagt hafa safnast fyrir vegna „bruna á beltum“ í Songzao-kolanámunni nærri borginni Chongqing í morgun. AP-fréttastofan segir að kínverska fréttaveitan Xinhua hafi ekki skýrt frekar hvers konar belti hafi verið brennd í námunni.
Fjölmennt björgunarlið var kallað út en aðeins náðist að bjarga einum og sautján manna hópi sem varð fyrir eitruninni, að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir Xinhua.
Öryggi í kínverskum iðnaði er sagt verulega ábótavant. Sérstaklega eru banaslys algeng í námum landsins. Songzao-kolanáman er í eigu orkufyrirtækis í Qijang-héraði.