Skoðun

Þetta stendur í Sam­göngu­sátt­málanum

Kolbrún Baldursdóttir skrifar

Umbyltingar í Breiðholti eru ekki í þágu allra. Ég hef búið í Breiðholti í 20 ár og starfað þar í 10 ár. Nú liggja fyrir hugmyndir að endurnýjuðu hverfisskipulagi fyrir Breiðholt. Samkvæmt hugmyndunum má byggja 3000 nýjar íbúðir, mest blokkir og einnig verður veitt leyfi til að byggja ofan á sumar blokkir. Með mörgum nýjum íbúðum ef ekki flestum fylgja engin bílastæði. Byggt verður á sumum almenningsbílastæðum sem fyrir eru.

Vissulega er margt sem er tímabært að gera fyrir Breiðholtið en ganga þarf varlega í að þétta byggð til að ekki verði gengið á græn svæði eða þrengt svo mikið að íbúum að þeir geta ekki fengið til sín gest sem kemur akandi. Ég hef spurt hvort ekki væri nær að auka atvinnuhúsnæði í Breiðholti til að jafna hlutfall íbúa og atvinnutækifæra. Sem dæmi mætti færa fyrirtæki og jafnvel einhverja skóla upp í Breiðholt. Slík uppbygging gæti létt á helstu umferðarteppum borgarinnar.

Breiðhyltingar verða að fylgjast vel með hvað skipulagsyfirvöld eru að fara að gera. Þau státa sig á af því að vera græn og umhverfisvæn en engu að síður ætla þau að eyðileggja útivistarsvæðið í Vatnsendahvarfi. Í hverfisskipulaginu er kynnt hugmynd að Vetrargarði sem byggja á í kringum skíðalyftuna í Jafnaseli. Þar nokkrum metrum ofar er fyrirhugað að leggja breiðan veg sem mun kljúfa Vatnsendahvarf (fyrirhugaðan Arnarnesveg). Vatnsendahvarfið er útivistarsvæði á einum besta útsýnisstað borgarinnar. Þangað leggja fjölmargir leið sína á hverjum degi. Ekki er þörf á að setja þennan veg þarna. Hægt er að fara aðra leið til að greiða fyrir akstri úr Kópavogi yfir á Breiðholtsbraut. Vinir Vatnsendahvarfs hafa bent á áhugaverðar og góðar lausnir, en á þá er ekki hlustað. Viðbrögð skipulags- og samgönguráðs við fyrirspurnum og tillögum Flokks fólksins við öðrum útfærslum eru: ,,Þetta stendur í samgöngusáttmálanum".

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×