Allir þeir sem tóku þátt í og komu að Hæfileikamótun drengja hjá Knattspyrnusambandi Íslands eru komnir í sóttkví eftir að einn þátttakandi greindist smitaður af kórónuveirunni.
Knattspyrnusamband Íslands segir frá því á heimasíðu sinni í dag að einn þátttakandi í Hæfileikamótun drengja, sem fram fór í Egilshöll í Reykjavík 19. og 20. september, hafi greinst smitaður af Covid-19.
Af þeim sökum þurfa aðrir þátttakendur (leikmenn og aðrir) að fara í sóttkví samkvæmt ákvörðun smitrakningateymisins.
Smitrakningateymi Almannavarna hefur upplýst KSÍ um að einn þátttakandi í Hæfileikamótun drengja sem fram fór 19. og 20. september hafi greinst smitaður af Covid-19. https://t.co/nntAS7W8aT
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) September 24, 2020
Allir hlutaðeigandi hafa verið upplýstir um stöðuna og viðeigandi ráðstafanir hafa verið gerðar.
66 strákar fæddir árið 2006 voru boðaðir í Hæfileikamótun drengja hjá KSÍ að þessu sinni. Þeir komu úr 25 félögum víðs vegar að af landinu auk þess sem einn þeirra er hjá dönsku félagi.
Ákveðið hefur verið að fresta Hæfileikamótun stúlkna sem fara átti fram um komandi helgi þar sem umsjónarmenn Hæfileikamótunar KSÍ eru á meðal þeirra sem eru í sóttkví.
KSÍ gerði ráðstafanir vegna umræddrar Hæfileikamótunnar drengja. KSÍ ákvað þannig að takmarka aðgengi áhorfenda en hver drengur gat bara boðið einum aðstandanda að fylgjast með mótinu.
KSÍ hvatti líka alla (leikmenn, þjálfara og aðstandendur) sem sóttu hæfileikamótið að gæta sérstaklega að öllum almennum sóttvörnum.