Íslenski boltinn

Setti sér markmið að komast í byrjunarlið landsliðsins fyrir ári síðan og náði því

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir á ferðinni gegn Lettlandi fyrir viku þar sem hún var í fyrsta sinn í byrjunarliði íslenska A-landsliðsins.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir á ferðinni gegn Lettlandi fyrir viku þar sem hún var í fyrsta sinn í byrjunarliði íslenska A-landsliðsins. vísir/vilhelm

Fyrir ári setti Karólínu Lea Vilhjálmsdóttir, leikmaður Breiðabliks, sér markmið að komast í byrjunarlið íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta. Hún náði því en Karólína var í byrjunarliði Íslands í leikjunum gegn Lettlandi og Svíþjóð í undankeppni EM og vakti mikla athygli fyrir góða frammistöðu.

Í gær setti faðir Karólínu, Vilhjálmur Kári Haraldsson, inn færslu á Twitter þar sem hann deildi markmiði sem dóttir hans setti sér í íþróttasálfræði í Flensborg fyrir ári síðan.

Karólína setti sér það markmið að spila A-landsleik í byrjunarliði eftir eitt ár, nánar tiltekið í október 2020. Hún sagði að markmiðið væri erfitt en raunhæft. Hún stefndi langt og teldi sig geta náð þessu markmiði með góðu móti.

Eins og áður sagði náði Karólína þessu markmiði þegar hún var í byrjunarliði Íslands gegn Lettlandi fyrir viku. Hún átti góðan leik á hægri kantinum, skoraði sitt fyrsta landsliðsmark og átti þátt í fleiri mörkum í 9-0 sigri Íslands.

Karólína fékk aftur traustið gegn Svíþjóð, bronsliði síðasta heimsmeistaramóts, í fyrradag. Hún stóð fyrir sínu og gott betur og var hættulegasti leikmaður íslenska liðsins í fyrri hálfleik. Karólína var tekin af velli þegar átta mínútur voru til leiksloka eftir að hafa skilað góðu dagsverki. Leikar fóru 1-1.

Karólína lék sinn fyrsta A-landsleik þegar Ísland vann Finnland, 0-2, í vináttulandsleik 17. júní á síðasta ári, þá sautján ára. Hún kom inn á sem varamaður fyrir Hlín Eiríksdóttur á 61. mínútu.

Karólína er hluti af sterkum 2001-árgangi Íslands. Hún var fyrirliði íslenska U-19 ára landsliðsins sem vann Þýskaland, 0-2, í mars á þessu ári.

Á þessu tímabili hefur Karólína leikið fimmtán leiki með Breiðabliki í deild og bikar og skorað þrjú mörk. Hún hefur leikið með Blikum undanfarin þrjú ár og varð Íslandsmeistari með þeim 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×