Ásthildur Helgadóttir, einn besti leikmaður Íslands fyrr og síðar, hrósaði ungu leikmönnunum í íslenska kvennalandsliðinu í hástert eftir jafnteflið við Svía, 1-1, á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2022 í gær.
Þrír leikmenn sem eru fæddir á þessari öld voru í byrjunarliði Íslands í gær, þær Sveindís Jane Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir.
„Þær koma af miklum krafti inn í liðið og standast algjörlega prófið fannst mér,“ sagði Ásthildur í uppgjöri á leiknum á Stöð 2 Sport í gær.
„Það er virkilega gaman að sjá þær koma inn í liðið og veitir okkur mikla von fyrir framtíðina,“ bætti Ásthildur við.
Fjögur aldamótabörn til viðbótar voru á varamannabekk Íslands í gær: Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Barbára Sól Gísladóttir, Guðný Árnadóttir og Hlín Eiríksdóttir. Sú síðastnefnda kom inn á þegar átta mínútur voru til leiksloka.
Ísland er með þrettán stig í F-riðli undankeppni EM líkt og Svíþjóð. Liðin eigast við í hálfgerðum úrslitaleik um toppsæti riðilsins í Gautaborg 27. október.