Ekki var við vörn Þórs að sakast þegar liðið tapaði fyrir FH, 19-24, í Olís-deild karla á fimmtudaginn.
Varnarmenn Þórs eru þó langt því frá stærstu nöfnin í bransanum og eiga sér áhugaverðan bakgrunn.
„Þegar ég tyllti mér fyrir framan skjáinn sá ég tvo menn í miðjublokkinni. Það er Hlynur Elmar Matthíasson sem spilaði síðast með Hömrunum tímabilið 2016-17 og svo erum við með Aðalstein Erni Bergþórsson sem er jafnaldri minn, fæddur 1987, en ég man ekkert eftir honum,“ sagði Theodór Ingi Pálmason í Seinni bylgjunni.
„Það er ekki skrítið því hann hætti í handbolta fyrir hundrað árum. Hann hefur bara verið í crossfit og var í liðsstjórn Þórs í fyrra. Svo ákvað hann að taka slaginn og byrja að mæta á æfingar og nokkrum mánuðum seinna er hann mættur í byrjunarlið hjá liði í Olís-deildinni.“
Ágúst Jóhannsson stakk svo upp á því að fleiri lið færu að nota liðsstjóra í vörnina hjá sér og nefndi liðsstjóra Vals, Guðna Jónsson, í þeim efnum.
Það hefur allavega ekki verið hægt að kvarta yfir vörn Þórs í fyrstu tveimur leikjum liðsins í Olís-deildinni. Þórsarar hafa aðeins fengið á sig 48 mörk. Þeir hafa hins vegar aðeins skorað 41 mark, fæst allra í deildinni.