Innlent

Ók niður göngu­götu á Lauga­vegi undir á­hrifum fíkni­efna

Sylvía Hall skrifar
Lögreglan veitti ökumanninum eftirför.
Lögreglan veitti ökumanninum eftirför. Vísir/Vilhelm

Betur fór en á horfðist þegar ökumaður ók undir áhrifum fíkniefna í miðborginni í dag. Ökumaðurinn hafði stolið bifreiðinni og þurfti lögregla að veita ökumanninum eftirför um miðbæ Reykjavíkur.

Lögregla hafði komið auga á bifreiðina eftir að tilkynning barst en ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Ók hann meðal annars eftir göngugötu á Laugaveginum, en samkvæmt tilkynningu lögreglu mátti litlu muna að gangandi vegfarendur yrðu fyrir bifreiðinni.

Viðkomandi á von á kæru fyrir hin ýmsu brot, en hann var vistaður í fangaklefa og bíður skýrslutöku þegar ástand hans lagast.

Þá var ökumaður stöðvaður á Seltjarnarnesi en sá reyndist ölvaður og var sviptur ökuréttindum. Annar var handtekinn í Garðabæ eftir að hafa ekið bifreið sinni út af veginum og reyndist hann vera í annarlegu ástandi.

Lítilli rútu var stolið í Háaleitis- og Bústaðahverfi í dag. Hún fannst mannlaus rúmlega tveimur tímum síðar, en málið er til rannsóknar. Í sama hverfi var brotist inn í hverfi og verðmætum eiganda hennar stolið og stuttu síðar brotist inn í íbúðarhús og verkfærum stolið.

Tveir voru svo handteknir í Kópavogi þar sem þeir reyndust vera með mikið magn af þýfi og fíkniefnum í fórum sínum. Mennirnir voru vistaðir í fangaklefum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×