Stjórn Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún harmar ummæli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í fréttum RÚV þar sem hún sagði ekki koma til greina að gera reglugerðarbreytingu til að „bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla.“
Vísaði Áslaug þar til máls egypskrar fjölskyldu sem dvalið hefur á Íslandi í 25 mánuði en stendur nú til að flytja úr landi í næstu viku.
„Stjórn Solaris furðar sig á kaldlyndi og ónærgætni í ummælum ráðherra um fólk í neyð sem lýsa algjöru skilningsleysi á því óöryggi, ótta, örvæntingu og óvissu sem flóttafólk býr við,“ segir í yfirlýsingunni.
Stjórn Solaris harmar ummæli dómsmálaráðherra sem einkennast af kaldlyndi og ónærgætni!
„Þá hafnar stjórn Solaris tilraun ráðherra til þess að frýja sig ábyrgð í málaflokki sem hann ber ábyrgð á og hvetur ráðherra til þess beita sér fyrir því strax að öll börn sem hafa verið hér í svo langan tíma eins og tvö ár eru fyrir börn fái hér skjól og vernd. Það á við um Abdalla, Rewida, Hamza og Mustafa eins og önnur börn í svipaðri stöðu sem hafa fest hér rætur og upplifa sig sem hluta af samfélaginu. Það er með öllu óásættanlegt að komið sé fram við börn í viðkvæmri stöðu með þeim ómannúðlega og óskiljanlega hætti sem brottvísun á slíkum tímapunkti er. Við hljótum öll að vera sammála um það,“ segir einnig í yfirlýsingunni.
Þá vill stjórn samtakanna koma því á framfæri við Áslaugu að „það væri óskandi að stjórnvöld settu sér stefnu í málefnum fólks á flótta sem byggir á mannúð, samkennd og mannréttindum. Það yrði ef til vill til þess að fólk neyddist ekki til þess að fara með sín viðkvæmu málefni í fjölmiðla, sem er staða sem enginn finnur sig í án þess að vera neyddur til þess af örvæntingu.“