Eldur kom upp í stærstu flóttamannabúðum grísku eyjunnar Lesbos í nótt. Búðirnar, hinar alræmdu Moria-búðir, hafa verið yfirfullar um nokkurra ára skeið.
Eldurinn breiddist hratt út og segir landstjórinn á Lesbos að búðirnar séu gjörónýtar. Enginn virðist hafa látist í eldsvoðanum en einhverjir fengu snert af reykeitrun. Ekki er ljóst hvað olli eldsvoðanum en sterkur vindur var í nótt og annars staðar á eyjunni brunnu tveir kjarreldar stjórnlaust.
Til að bæta gráu ofan á svart voru íbúar búðanna allir í sóttkví eftir að kórónuveirusmit kom upp í búðunum. Þrjátíu og fimm flóttamenn höfðu greinst smitaðir áður en eldurinn blossaði upp.
Um þrettán þúsund manns hafa þurft að búa við þröngan kost í Moria-búðunum en svæðið er aðeins hannað til að taka á móti um þrjú þúsund manns.