Lögregla handtók mann grunaðan um líkamsárás í miðbænum á ellefta tímanum í gærkvöldi. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu. Áverkar þolanda árásarinnar eru ekki skráðir, að því er segir í dagbók lögreglu þar sem tilkynnt er um málið.
Þá var rafhlaupahjóli stolið frá dreng meðan hann var í sundi í Laugardalnum um kvöldmatarleytið. Málið er í rannsókn.
Lögregla hafði afskipti af konu sem grunuð er um þjófnað úr verslun í Hlíðunum. Málið var afgreitt á vettvangi.
Þá stöðvaði lögregla nokkra ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.