Mörkunum rigndi í Pepsi Max deild kvenna í gærkvöldi er heil umferð fór fram. Þetta var 13. umferðin en nokkur lið eiga inni leiki vegna sóttkví og frestaðra leikja.
Valur er áfram á toppi deildarinnar eftir 4-0 sigur á ÍBV. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir gerði tvö mörk, Arna Eiríksdóttir eitt og eitt markanna var sjálfsmark. Valur er með einu stigi meira en Breiðablik sem á þó leik til góða.
Breiðablik vann 4-0 sigur á Þrótti á útivelli. Alexandra Jóhannsdóttir og Agla María Albertsdóttir gerðu sitt hvor tvö mörkin en Þróttur er í 8. sætinu, stigi frá fallsæti.
Stjarnan gerði sér lítið fyrir og skellti bikarmeisturunum á Selfossi í gær. Betsy Hassett og Aníta Ýr Þorvaldsdóttir komu Stjörnunni í 2-0 en Barbára Sól Gísladóttir minnkaði muninn fyrir heimastúlkur.
Shameeka Nikoda Fishley kom Stjörnunni í 3-1 á 40. mínútu. Í uppbótartíma minnkaði Helena Hekla Hlynsdóttir muninn fyrir Selfoss en nær komust þær ekki og afar öflugur sigur Stjörnunnar sem er í 6. sætinu. Selfoss er í því fjórða.
FH vann botnslaginn gegn KR, 4-2. Phoenetia Maiya Lureen Browne og Helena Ósk Hálfdánardóttir komu FH í 2-0 áður en Ingunn Haraldsdóttir minnkaði muninn eftir klukkutíma leik.
Madison Santana Gonzalez kom FH í 3-1 en aftur minnkaði KR muninn. Nú var það Alma Mathiasen á 70. mínútu en Andrea Mist Pálsdóttir tryggði FH sigurinn með fjórða marki Fimleikafélagsins á 82. mínútu.
FH er í 9. sætinu með níu stig eftir tólf leiki en KR er í tíunda sætinu með sjö stig eftir níu leiki.
Fylkir vann 4-2 sigur á Þór/KA í Árbænum og er í 3. sætinu. Bryndís Arna Níelsdóttir tryggði Fylki sigurinn með tveimur mörkum á siðustu tuttugu mínútunum en Akureyrastúlkur voru einum færri frá 50. mínútu er Margrét Árnadóttir fékk beint rautt spjald.