Íslenski boltinn

Sjáðu viðtal við Söru þegar hún var valin fyrst í íslenska landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara ræðir um fyrsta landsliðsvalið.
Sara ræðir um fyrsta landsliðsvalið. vísir/stöð 2

Í tilefni þess að Sara Björk Gunnarsdóttir varð Evrópumeistari með Lyon á sunnudaginn, fyrst íslenskra fótboltakvenna, var við hæfi að kíkja í gullkistu Stöðvar 2 og finna gamalt innslag með landsliðsfyrirliðanum.

Fyrir valinu varð þrettán ára gamalt viðtal sem var tekið við Söru eftir að hún var fyrst valin í íslenska A-landsliðið sumarið 2007.

Þrátt fyrir að Sara væri aðeins sextán ára og léki með Haukum í næstefstu deild valdi Sigurður Ragnar Eyjólfsson hana í landsliðið fyrir leik gegn Slóveníu í undankeppni EM 2009. Sara var eini nýliðinn í hópnum og eini leikmaðurinn í íslenska hópnum sem lék ekki erlendis eða í efstu deild á Íslandi.

„Þjálfarinn minn hringdi í mig og óskaði mér til hamingju og þá fékk ég að vita að ég væri komin í landsliðshópinn. Ég var bara hissa og í sjokki en ánægð,“ sagði Sara í samtali við Hans Steinar Bjarnason í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

Hann spurði hana m.a. hvort einhver af stóru liðunum í Landsbankadeildinni myndu ekki vilja semja við hana í kjölfarið af landsliðsvalinu.

„Jú, örugglega. Ég hef verið í sambandi við nokkur lið og er að spá í þetta. Breiðablik hefur talað mikið við mig og KR,“ sagði Sara sem gekk í raðir Breiðablik um mitt sumar 2008. Þar lék hún í tvö og hálft tímabil áður en hún fór í atvinnumennsku til Svíþjóðar.

Sara lék sinn fyrsta landsleik gegn Slóveníu ytra 26. júlí 2007. Hún kom inn á sem varamaður fyrir Katrínu Ómarsdóttur þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Slóvenar unnu leikinn, 2-1.

Núna, haustið 2020, hefur Sara leikið 131 landsleik og skorað 20 mörk. Hana vantar bara tvo landsleiki til að jafna leikjamet Katrínar Jónsdóttur og ætti að ná þeim áfanga síðar í þessum mánuði þegar Ísland mætir Lettlandi og Svíþjóð í undankeppni EM.

Gamla viðtalið við Söru má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Gamalt viðtal við Söru

Tengdar fréttir

„Ég fíla að fara eftir fjarlægum draumi“

„Mér þykir ótrúlega vænt um allar þessar kveðjur. Ég var í smá sjokki yfir hve margir voru að horfa á leikinn,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, nývöknuð í Frakklandi. Hamingjuóskum hefur rignt yfir hinn nýkrýnda Evrópumeistara í fótbolta.

Sara Björk skoraði og Lyon er Evrópu­meistari

Sara Björk Gunnarsdóttir er Evrópumeistari í fyrsta sinn eftir að Lyon vann 3-1 sigur á Wolfsburg í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld. Sara Björk skoraði í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×