Skoðun

Hvað vitum við um Sam­herja?

Arnar Atlason skrifar

Samherji er næst stærsta útgerðarfélag landsins með um 7% kvótann. Samherja blokkin svokallaða sem í eru félög nátengd Samherja eignarböndum er með um 17%. Félagið hefur frá stofnun 1983 vaxið innan kvótakerfisins, sem komið var á um sama leiti. Umsvif þess í dag eru þó ekki síður mikil erlendis en áætla má að liðlega 50% af umsvifum félagsins sé fyrir utan landsteinana.

Samherji er með höfuðstöðvar á Akureyri. Fyrirtækið er einnig með fjölda starfstöðva um allan heim. Því hefur verið gerð ítarlega skil og situr þar eftir efst í huga myndin af öllum skrifstofum Samherja á Kýpur, þar sem engin sala sjávarafurða fer fram.

Sjávarútvegs og Landbúnaðar ráðherra Kristján Þór Júlíusson tengist Þorsteini Má vinaböndum. Hann hefur líst því yfir að hann muni stíga til hliðar í málum á þingi er beinast muni að Samherja. Kristján Þór var stjórnarformaður Samherja.

Samherji er samþætt félag (verticly integrated). Það þýðir að félagið heldur á keðju fyrirtækja eða deilda sem eiga viðskipti sín á milli, innanlands og milli landa. Fyrirtækin eru allt frá því að vera útgerðarfélög hér heima til vinnslu og sölufyrirtækja innanlands. Sömu sögu má segja erlendis. Þessi tegund fyrirtækja hefur ósjaldan legið undir gagnrýni fyrir ógagnsæi í verðlagningu. Freistnivandi vegna möguleika á óeðlilegri milliverðlagningu (transfer pricing) er mikill. Flest mál sem beinst hafa að Samherja á undanförnum árum innanlands og erlendis fjalla um þetta eðli reksturs Samherja.

Óeðlilega lá milliverðlagning getur í tilfelli Samherja leitt til lægri launa sjómanna, lægri hafnargjalda, lægra veiðigjalds og síðast en ekki síst til lægri tekna Ríkissjóðs. Gagnrýni og eftirlit getur því ekki talist óeðlileg þegar um jafn háar upphæðir er að ræða eins og raun ber vitni.

Mál Seðlabanka Íslands á hendur Samherja var einmitt þess eðlis. Frá Verðlagsstofu skiptaverðs komu tölur sem sýndu óeðlilega lágt verð. “Í ljós kemur að Samherji hf. er að greiða lægstu verðin en það er eina fyrirtækið sem er að selja karfa í eigin vinnslu í Þýskalandi það er um að ræða beina sölu” (úr vinnsukjali Verðlagsstofu Skiptaverðs) Samherji var sýknaður af lagatæknilegum ástæðum en verðlagningin ekki tekin til umfjöllunar. Eftir stendur að verðið var óeðlilega lágt og selt milli deilda í samþættu félagi.

Eigendur Samherja (Þorsteinn og Helga) voru sektuð fyrir brot á skilaskyldu laga um gjaldeyrismál í kjölfar bankahrunsins. Sektina þurfti ríkissjóður svo að endurgreiða á árinu 2019 vegna mistaka sem verð voru við brot á setningu laga um gjaldeyrismál.

Mál Samherja í Namibíu snýr að sama skapi að verðlagningu, skattaundanskotum og mútum. Mál það er í farvegi og verður fróðlegt að sjá niðurstöðu eða hvort aftur verði komist hjá því að fá niðurstöðu !

Á Íslandi er fiskur seldur tvennu móti. Annarsvegar gegn hæsta verði á Fiskmörkuðum landsins. Hinsvegar með samningsverði milli aðila, sem í sumum tilfellum er sami aðilinn eins og í tilfelli Samherja. Verð í þannig viðskiptum er samningsverð. Verðlagsstofa Skiptaverð sem staðsett er á Akureyri gefur út svokallað viðmiðunarverð sem mjög gjarnan er miðað við. Verð þetta er að lágmarki 25 % lægra en meðalverð á Fiskmörkuðum (vegna síðustu kjarasamninga sjómanna). Jafnframt hefur verið sýnt fram á tilfelli þar sem verðið hefur verið nálægt 50% lægra. Kerfi þetta ýtir undir umrædda óeðlilega milliverðlagningu og hyglir þeim útgerðum sem ekki selja á opnum markaði. Þær greiða vegna þessa, lægri laun, lægri aflagjöld og vegna afleiddra áhrifa lægri veiðigjöld.

Samkeppniseftirlitið gaf út álit árið 2012 nr. 2/2012 og beindi í því tilmælum til ráðherra: “ Samkeppniseftirlitið vill benda atvinnuvega og nýsköpunarráðherra og öðrum stjórnvöldum á að það kunni að vera hvatar hjá lóðrétt samþættum útgerðarfyrirtækjum sem valda því að þau gefi upp sem lægst verð í innri viðskiptum milli vinnslu- og útgerðarhluta fyrirtækjanna.” Í sama áliti kom SE með fjórar tillögur í þeirri fyrstu segir meðal annars: “Verðlagning í innri viðskiptum á milli útgerðar- og fiskvinnsluhluta lóðrétt samþættrar útgerðar verði eins og um viðskipti milli tveggja óskyldra aðila sé að ræða” SE fjallaði jafnframt um Verðlagsstofu í sama áliti: “Samkeppniseftirlitið vill benda ráðherra á að það fyrirkomulag laga um Verðlagsstofu skiptaverðs, sem fjallað var um hér að framan, að hagsmunasamtök útvegsmanna sem eru keppinautar, ræði um og ákveði verð sem síðan er notast við í innri viðskiptum útgerða er óheppilegt í samkeppnislegu tilliti.”, “Til að koma í veg fyrir þær samkeppnishömlur sem af þessu fyrirkomulagi leiða væri eðlilegast að útvegsmenn kæmu ekki með benum hætti að ákvörðun þessa verðs (verðlagsstofuverðs)”

Það sem við vitum um Samherja er að þar eru við stjórnvölin; framsæknir, áræðnir stjórnendur sem víla fátt fyrir sér. Þetta eru aðilar sem hafa sýnt af sér afburða hæfni í útgerð. Haslað sér völl á ýmsum sviðum og séð tækifæri þar sem aðrir sjá hindranir. Fyrsta skylda þeirra eins og annarra stjórnenda er að hámarka afkomu félagsins, þeirri skildu hafa þeir sinnt af kostgæfni.

Fyrsta setning fyrstu greinar laga um stjórn fiskveiða hljómar á þennan veg. „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Viðfangsefni stjórnvalda er ekki að koma böndum yfir félagið eða hindra framgang þess. Viðfangsefnið er að markmið Samherja líkt og annarra félaga í íslenskum sjávarútvegi fari saman við markmið þjóðarinnar. Sem er að stefna að því að hámarka virði auðlinda okkar í hafinu, þjóðinni til hagsbóta.

Markmiðum þeim verður ekki mætt ef samkeppnislög eru virt að vettugi. Þeim verður ekki mætt ef rekstur stærstu félaga landsins er yfir gagnrýni stjórnvalda hafin. Þeim verður og ekki mætt ef þau fá að skrifa söguna sjálf.

Höfundur er formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.




Skoðun

Sjá meira


×