Erlent

Jacob Blake sagður lamaður fyrir neðan mitti

Andri Eysteinsson skrifar
Lítill hópur mótmælenda í Kenosha.
Lítill hópur mótmælenda í Kenosha. Vísir/AP

Jacob Blake, maðurinn sem skotinn var í bakið af lögreglumönnum í borginni Kenosha í Wisconsin í Bandaríkjunum er lamaður fyrir neðan mitt að sögn föðurs hans.

Myndbönd af vettvangi sýna hinn 29 ára gamla, þriggja barna föður, Jacob Blake halla sér inn í bíl sinn þegar lögreglumaður grípur í flík hans og hleypir af skotum í bak Blake. Sjö skot heyrast á myndbandinu en ekki liggur enn ljóst fyrir af hverju lögregla þurfti að hafa afskipti af Blake.

Faðir fórnarlambsins og nafni ræddi mál sonar síns við Chicago Sun Times en BBC greinir frá.

„Hvað réttlætir öll þessi skot. Hvernig er hægt að réttlætta að gera þetta fyrir framan barnabörnin mín?“ spyr Blake eldri. Sjónarvottur og sá sem tók upp myndband af atburðinum segir að áður en að upptaka hófst hafi lögreglumenn og Blake átt í glímu og segir hann að lögreglumaður hafi slegið til Blake og beitt rafbyssu gegn honum.

Eftir að Blake var skotinn og myndbandið birtist brutust út fjölmenn mótmæli í Wisconsin og víðar um Bandaríkin. Mikill fjöldi fólks marseraði að höfuðstöðvum lögreglunnar í Kenosha og hafa borist fregnir um að kveikt hafi verið í ökutækjum í nágrenni.

Þjóðvarðlið var kallað út í Wisconsin í nótt til að aðstoða lögregluna að hafa hemil á mótmælendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×