Gámasvæði Árborgar hefur verið lokað vegna COVID-19 smits starfsmanns þess en viðbragðsstjórn sveitarfélagsins tók ákvörðun þess efnis í dag.
Upplýsingar um enduropnun svæðisins verða uppfærðar þegar að rakningu er lokið af hálfu rakningarteymis almannavarna.
Í tilkynningu á vef Árborgar segir að gerðar séu ítarlegri ráðstafanir en lög geri ráð fyrir en með þessum varúðarráðstöfunum vilji Árborg gefa rakningarteyminu betra tækifæri til að greina stöðuna.
Íslenska gámafélagið mun leysa gámasvæðið af hólmi út laugardaginn. Móttöku félagsins er að finna í Hrísmýri og verður svæðið opið á sama tíma og gámasvæði Árborgar hefði verið.