Íslensk stjórnvöld hafa í morgun komið á framfæri hörðum mótmælum við aðgerðum sem bandarísk stjórnvöld gripu til í nótt og snúa að ferðabanni frá Bandaríkjunum til Evrópu næstu fjórar vikurnar.
Þetta kemur fram í eftirfarandi tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu:
Íslensk stjórnvöld hafa í morgun komið á framfæri hörðum mótmælum við aðgerðum sem bandarísk stjórnvöld kynntu í gærkvöldi. Þær fela í sér komubann ferðamanna sem dvalið hafa í Schengen-ríkjum og munu geta haft alvarleg áhrif á Íslandi, einkum fyrir ferðaþjónustu.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í morgun samtal við sendiherra Bandaríkjanna, og í kjölfarið fund með staðgengli hans, til þess að koma mótmælum á framfæri. Ráðherra hefur í þessum samtölum við bandarísk stjórnvöld lagt á það ríka áherslu að Ísland verði undanþegið ákvæðunum í ljósi landfræðilegrar sérstöðu sinnar og víðtækra aðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til til að hefta útbreiðslu COVID-19 hér á landi.
Guðlaugur Þór hefur óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd við fyrsta tækifæri til að ræða þá stöðu sem upp er komin.
Íslensk stjórnvöld mótmæla aðgerðum bandarískra stjórnvalda

Tengdar fréttir

Ferðabannið gríðarlegt reiðarslag fyrir þjóðina
Ferðabann Bandaríkjaforseta er gríðarlegt reiðarslag að mati fjármálaráðherra, sem segist hafa snöggreiðst þegar hann heyrði af ákvörðun Donald Trump í nótt.

Ferðabann Trump mun bíta Íslendinga
Íslendingar mega vænta umtalsverðra efnahagslegra áhrif af ferðabanni Bandaríkjaforseta

Kórónuveiran: Leita leiða til að bjarga smærri fyrirtækjum frá lokun
Æ fleiri beina nú sjónum sínum að smærri fyrirtækjum sem eiga erfitt með að mæta þeim lausafjárvanda sem við blasir ef tekjusamdráttur í kjölfar kórónuveirunnar verður mikill.