Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari er mættur aftur í slaginn í þýsku 1. deildinni í handbolta, sem þjálfari Melsungen.
Fyrsti leikur Melsungen undir stjórn Guðmundar var í EHF-keppninni um helgina, þar sem liðið vann Bjerringbro-Silkeborg 35-33. Í kvöld tapaði Melsungen hins vegar gegn hinu sterka liði Flensburg á útivelli, 30-23. Flensburg var 14-12 yfir í hálfleik en náði góðu forskoti um miðjan seinni hálfleik og lét það ekki af hendi.
Flensburg er nú með 40 stig, tveimur stigum á eftir Kiel á toppi deildarinnar en Kiel vann Minden í kvöld og á leik til góða.
Melsungen er í 7. sæti deildarinnar með 30 stig, fjórum stigum á eftir næsta liði sem er Rhein-Neckar Löwen.
Viggó Kristjánsson og félgar í Wetzlar unnu nauman sigur á Göppingen, 31-30, í kvöld. Viggó var ekki á meðal markaskorara Wetzlar en liðið er í 8. sæti með 27 stig, þremur stigum á eftir Melsungen.

