Innlent

Veittust að starfs­manni skíða­svæðisins í Grafar­vogi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá skíðasvæðinu í Grafarvogi en myndin er tekin fyrr í vetur.
Frá skíðasvæðinu í Grafarvogi en myndin er tekin fyrr í vetur. reykjavíkurborg

Tveir eða þrír unglingar veittust að starfsmanni skíðasvæðisins í Grafarvogi fyrr í kvöld þegar hann var að reyna að leiðbeina þeim um hvernig þeir ættu að fara í skíðalyftuna út frá öryggissjónarmiðum.

Hrintu þeir starfsmanninum þannig að hann féll um koll en samkvæmt upplýsingum frá Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar, er starfsmaðurinn ómeiddur.

Starfsmaðurinn hringdi á lögregluna en þegar lögreglan kom á staðinn voru þeir sem veittust að starfsmanninum á bak og burt.

Á Facebook-síðu skíðasvæðanna í borginni er óskað eftir því að ef einhver getur gefið upplýsingar um hverjir réðust á starfsmanninn í lyftunni þá sé hægt að hafa samband í skilaboðum.

Bjarni segir annars í samtali við Vísi að skíðasvæðin í Reykjavík hafi sjaldan verið eins mikið opin í vetur eða í 50 daga í heildina það sem af er vetri. Aðsóknin sé langmest í Jafnarseli í Breiðholti en heilt yfir hafi aðsóknin verið góð og veturinn gengið mjög vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×