Frá og með komandi tímabili mun nafn efstu deildar kvenna í fótbolta í Finnlandi vera Kansallinen Liiga (í. Þjóðardeildin). Með nafnabreytingunni er kynjaforskeytinu í nafni deildarinnar kastað og er breytingin sögð liður í langtímaáætlun finnska knattspyrnusambandsins þar sem lögð er áhersla á jafnrétti.
Frá árinu 2007 hefur nafn efstu deildar kvenna verið Kvennadeildin, en það nafn mun nú heyra sögunni til. Fulltrúar finnska knattspyrnusambandsins segja að nú verði hætt að vera með forskeyti í nafninu sem vísi í kyn.
„HM síðasta sumar vakti mikla alþjóðlega athygli og sýndi fram á að fólk horfi á fótbolta burtséð frá kyni. Fólk horfir á leiki þar sem þeir hafa skemmtanagildi og leikmennirnir toppíþróttafólk,“ segir Ari Lahti, formaður sambandsins í yfirlýsingu. „Því eigi kvennafótboltinn að lúta sömu skilyrðum og karlafótboltinn.“
Breytingin er liður í jafnréttisátaki finnska knattspyrnusambandsins, en í haust var greint frá því að laun landsliðsmanna skyldu vera þau sömu, burtséð frá kyni.