Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir hættu á því að allt fari á hvolf í Vestmannaeyjum gangi spár eftir. Einar, sem hefur marga fjöruna sopið á ferli sínum í veðurfræðum, vísar í spákort Veðurstofunnar þar sem segir að reikna megi með 110 hnúta vindi, sem samsvarar um 55 m/s undan Suðurlandi klukkan fimm í fyrramálið.
Kortið má sjá í færslu Einars hér að neðan.
„Hvar endar vindurinn?“ spyr Einar og segist í raun og veru ekki hafa séð aðra eins hvassviðrisspá undanfarin ár.
„Þetta er nærri Vestmannaeyjum. Hætt er við að allt fari á hvolf í Eyjum í orðsins fyllstu merkingu ef þetta gengur eftir.“
Einar veltir fyrir sér hvort meðalvindurinn á Stórhöfða nái 40-45 m/s snemma í fyrramálið.
„10. des 2019 mældust 40 m/s í NV átt og þótti ægilegt rok í Eyjum,“ segir Einar. Nokkuð var um skemmdir á eyjunni þar sem klæðning fauk af iðnaðarhúsi við höfnina og þak af bílskúr svo eitthvað sé nefnt.
„Mesti meðalvindur á Stórhöfða er hins vegar frá stórviðrinu 3. febrúar 1991 - 56,6 m/s.“
Veðurfræðingurinn minnir þó á að þokkalegt skjól sé í bænum á Heimaey þegar er austanátt. Vindurinn geti því verið mun minni þar samanborið við Stórhöfða.