„Ég er búinn að vera að halda því til haga og segja öllum sem ég hitti að það sé alltaf logn í Laugarási og nú er ég spurður „hvað var að gerast?“ þegar allt í einu fara að fjúka tré og gróðurhús,“ segir Páll M. Skúlason hlæjandi í samtali við Vísi.
Hann hefur birt myndir af eftirköstum óveðursins sem gekk yfir landið á föstudaginn í síðustu viku og áhrifum þess á byggingar og gróður í Laugarási í Bláskógabyggð. Þar má sjá að heilu trén hafa rifnað upp með rótum.
„Það hvín yfirleitt bara í trjátoppunum“
Óveðrið sem gekk yfir landið í síðustu viku hafði víðtæk áhrif um allt land en þó óvíða meiri en á Suðurlandi þar sem miklar skemmdir urðu. Hlaða á bæ á Rangárvöllum splundraðist meðal annars og átján tonna súrheysturn skemmdist í Landeyjunum. Þá brotnuðu margir rafmagnsstaurar í veðrinu. Laugarás var þar ekki undanskilinn, þrátt fyrir að Páll vilji meina að þar sé yfirleitt logn.

„Það hvín yfirleitt bara í trjátoppunum og maður veit lítið af þessu,“ segir Páll að gildi alla jafna um Laugarás þegar óveður gangi yfir Suðurlandið. Sú reyndist raunin ekki á föstudaginn þegar austanáttin barði á gróðurhúsum og trjám í þorpinu.
„Það virðist eins og þetta hafi skellt sér niður á nokkrum stöðum,“ segir Páll en á meðfylgjandi myndum má meðal annars sjá hvernig áratugagamlar aspir hafa rifnað upp með rótum og illa leikið gróðurhús.
Sammála bóndanum á Skíðbakka II um gagnsemi skógræktar til skjóls
Páll tekur undir orð Elvar Eyvindssonar, bónda á Skíðbakka II í Austur-Landeyjum, í kvöldfréttum Stöðvar um helgina en hann varð fyrir því óláni að súrheysturn skemmdist í óveðrinu á föstudaginn. Elvar þakkaði því að ekki varð meira tjón á bænum hversu mikið af trjám og skjólbeltum er í kringum bæinn, sem gáfu gott skjól.

„Áður en að trén komu og uxu upp var suðaustanáttin mjög slæm og skemmdi mikið gróðurhús en það hefur verið voðalega lítið um það undanfarin ár. Þetta fer dálítið eftir hvaða átt er,“ segir Páll. Töluverð vinna er framundan við að hreinsa upp eftir óveðrið.
„Þetta er dálítið svakalegt og mikið verk að taka til eftir þetta.“
Fleiri myndir af eftirköstum óveðursins í Laugarási má finna á Flickr-síðu Páls.
