Strákarnir okkar í íslenska karlalandsliðinu í handbolta héldu ekki aðeins von um sæti í umspili Ólympíuleikanna á lífi með sigrinum á Portúgal.
Eftir tapleikina á móti Ungverjalandi og Slóveníu voru margir farnir að afskrifa sæti í umspili um laus sæti á ÓL í Tókýó hvað þá að fá tækifæri að spila um verðlaun.
Íslenska þjóðin fór hátt upp eftir sigrana á Dönum og Rússum í fyrstu tveimur leikjunum en fór jafnframt lang niður eftir vonbrigðin gegn Ungverjum og Slóvenum.
Nú er ástæða til að trúa á ný og vonir íslenska liðsins fá byr undir báða vængi á samfélagsmiðlum.
Gróttumaðurinn Jökull Finnbogason á Twitter er nefnilega búinn að finna út leið íslenska landsliðsins í undanúrslit á EM 2020.
Þetta þarf að gerast til að Ísland komist í undanúrslit samkvæmt útreikningum Jökuls:
Portúgal vinnur Sloveníu
— Jökull Finnbogason (@Jokullf) January 19, 2020
Ísland vinnur Noreg
Svíþjóð vinnur Ungverja
Portúgal vinnur Ungverja
Noregur vinnur Slóveníu
Ísland vinnur Svíþjóð
Semi Finals!#handbolti#emruv
Fari leikirnir eins og hér fyrir ofan þá verður lokastaðan svona í milliriðli Íslands:
1. Noregur 8 stig
2. Ísland 6 stig
3. Portúgal 6 stig
4. Ungverjaland 4 stig
5. Slóvenía 4 stig
6. Svíþjóð 2 stig
Íslenska landsliðið kæmist þá áfram í undanúrslitin á kostnað Portúgala vegna betri árangurs í innbyrðisleikjum. Sigurinn í gær myndi þá skila íslenska liðinu í leiki um verðlaun.
Það er samt eitt að ná því að vinna bæði Noreg og Svíþjóð, tvo daga í röð, en síðan annað að öll úrslit í hinum leikjunum verði okkur í hag.
Það sem er aftur á móti ljóst er að Ísland á enn möguleika á komast alla leið í leiki um verðlaun á þessu Evrópumóti og sigurinn í gær gefur öllum nýjan kraft, ekki bara leikmönnunum sjálfum heldur handboltaáhuga allrar þjóðarinnar.