Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er Einar Einarsson, áður Einar Jökull Einarsson, sem hefur í tvígang fengið þunga dóma fyrir fíkniefnabrot, á meðal þeirra sex manna sem Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í gæsluvarðhald á sunnudaginn. Að minnsta kosti þrír hafa kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar.
Sex manns voru á sunnudag úrskurðaðir í gæsluvarðhald, fimm þeirra til 31. janúar og einn til 27. janúar, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Rannsókn lögreglu er á skipulagðri brotastarfsemi og snýr meðal annars að framleiðslu fíkniefna og peningaþvætti. Voru mennirnir handteknir um helgina í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu, en ráðist var í húsleitir víða á höfuðborgarsvæðinu. Lagt var hald á fíkniefni, vopn og fjármuni.
Einn hinna handteknu, fyrrnefndur Einar Einarsson, var í desember síðastliðnum dæmdur í sex ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir framleiðslu á átta kílóum af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði. Tveir aðrir hlutu dóm í því máli.
Þá fékk Einar þungan dóm í Pólstjörnumálinu svonefnda árið 2008; var dæmdur í níu og hálfs árs langt fangelsi fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnainnflutnings.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur dómnum er varðar amfetamínframleiðsluna í Borgarfirði verið áfrýjað en Einar sat í gæsluvarðhaldi vegna þess máls þegar hann var handtekinn um helgina og færður til yfirheyrslu.
Lögreglan verst allra frétta af málinu en yfirheyrslur stóðu yfir í gær. Að minnsta kosti þrír hafa kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar, en hinir grunuðu hafa þrjá sólahringa til að kæra úrskurð héraðsdóms. Búist er við niðurstöðu frá Landsrétti á næstu dögum.
Verjendur mannanna sem fréttastofa hefur rætt við segjast hafa fengið litlar upplýsingar í málinu og að lögregla haldi spilunum þétt að sér.
Einn hinna handteknu hlotið tvo þunga dóma fyrir fíkniefnabrot

Tengdar fréttir

Óvæntar vendingar í máli Pólstjörnumanna minna á mál Franklíns Steiner
Vinur Franklíns var dæmdur fyrir að hafa borið rangt fyrir dómi.

Amfetamínframleiðsla í Borgarfirði: Vitnið sem tók á sig sök gat ekki lýst framleiðsluferli amfetamíns
Sakborningar í umfangsmiklu amfetamínsmáli fengu í dag þunga dóma fyrir aðild þeirra að málinu en dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag. Mennirnir þrír voru dæmdir fyrir framleiðslu á átta kílóum af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði.

Sakborningar skulu víkja úr sal í amfetamínsmálinu
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu saksóknara í umfangsmiklu fíkniefnamáli þess efnis að sakborningar gæfu skýrslu hver fyrir sig við aðalmeðferð málsins. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í morgun. Saksóknari gerði kröfuna til að koma í veg fyrir að ákærðu gætu samræmt frásögn sína.