Beinbrunasóttarfaraldur gengur nú yfir Paragvæ í Suður-Ameríku þar sem þúsundir hafa sýkst á síðustu vikum. Hefur nú fengist staðfest að sjálfur forseti landsins, Mario Abdo, hafi einnig greinst með veikina.
Julio Mazzoleni, heilbrigðisráðherra Paragvæ, greindi frá því á fréttamannafundi í dag að hinn 48 ára forseti hafi veikst í ferð til austurhluta landsins. Fékkst svo staðfest eftir að hann sneri aftur til höfuðborgarinnar Asunción að hann hafi fengið beinbrunasótt (e. dengue).
Flest tilfelli beinbrunasóttar í Suður-Ameríku hafa greinst í Brasilíu og Paragvæ. Árið 2013 gekk faraldur yfir Paragvæ þar sem 250 manns létu lífið.
Á vef embættis landlæknis segir að smit berist með biti moskítóflugna, en hún berst í fluguna þegar hún sýgur blóð úr sýktum öpum eða mönnum. Beinbrunasótt smitar ekki manna á milli.
Helstu einkenni beinbrunahitasóttar eru höfuðverkur, bein- og liðverkir og upphleypt útbrot koma eftir nokkra daga. Sjúkdómurinn gengur oftast yfir og sjúklingurinn nær sér að fullu, en blæðandi beinbrunasótt er alvarlegri sjúkdómsmynd sem getur leitt til dauða.